Lögðu hald á sjö tonn af kókaíni

Spænsk yfirvöld hafa lagt hald á sjö tonn af kókaíni …
Spænsk yfirvöld hafa lagt hald á sjö tonn af kókaíni úr neðanjarðargámum. Ljósmynd/AFP

Spænsk yfirvöld hafa lagt hald á sjö tonn af kókaíni úr neðanjarðargámum.

Lögregla rakti grunsamlega hraðbáta til dreifbýlis suður af borginni Sevilla, þar sem hinir grunuðu geymdu fíkniefnin í tveimur gámum sem faldir voru neðanjarðar.

Um er að ræða sjóflutningagáma sem komið var fyrir undir bóndabýli. Þrír grunaðir smyglarar hafa verið handteknir.

Þetta er sagt stærsta hald lögreglunnar á kókaíni sem smyglað hefur verið til suðurhluta Spánar með hraðbáti.

Þá var lagt hald á þrjú vopn í aðgerðinni, þar á meðal AK-47 árásarriffil, og tvö stolin farartæki.

Spánn er helsta gáttin

Spánn er ein helsta gáttin að Evrópu fyrir alþjóðlega eiturlyfjasmyglara vegna nálægðar við Marokkó, mikinn kannabisframleiðanda, og náinna tengsla við fyrrum nýlendur Rómönsku Ameríku.

Þá lögðu portúgölsk yfirvöld hald á tæplega 3,5 tonn af kókaíni rétt sunnan við Lissabon. Eiturlyfin voru falin í bananasendingu í flutningaskipi sem kom frá Rómönsku Ameríku, að sögn lögreglunnar.

Aðgerðin var framkvæmd með bresku glæpastofnuninni og er málið áfram til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert