Tölvuþrjótum á vegum kínverskra stjórnvalda tókst að brjótast inn fyrir varnir bandaríska fjármálaráðuneytisins og komast yfir skjöl, að því er fram kemur í bréfi ráðuneytisins til þingmanna.
Atvikinu, sem varð 8. desember, er lýst sem „alvarlegum netöryggisbresti“.
Í bréfinu, sem CNN hefur undir höndum, segir fulltrúi fjármálaráðuneytisins að hugbúnaðarþjónustufyrirtæki hafi gert ráðuneytinu viðvart um að tölvuþrjótar hefðu komist inn á ákveðin vinnusvæði ráðuneytisins með stolnum lykli.
Eru þeir sagðir hafa komist yfir skjöl.
Í yfirlýsingu til CNN segir talsmaður ráðuneytisins að búið sé að aftengja þau vinnusvæði sem tölvuþrjótarnir komust inn á. Þá séu bandarísk stjórnvöld í samvinnu við lögregluyfirvöld og netöryggis- og innviðaöryggisstofnunina (CISA) að rannsaka málið.
„Það bendir ekkert til að að tölvuþrjóturinn sé enn með aðgang að kerfum eða upplýsingum fjármálaráðuneytisins,“ segir í yfirlýsingunni.
Ekki liggur fyrir hvað tölvuþrjótarnir komust inn á mörg vinnusvæði og umfang skaðans óljóst.
„CISA var upplýst um atvikið um leið og ráðuneytinu varð ljóst um árásina, og aðrar stofnanir fengu upplýsingar um leið og umfang árásarinnar varð ljóst,“ segir í bréfinu sem var sent á þingmenn.