Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á dögunum 2,5 milljarða dala hernaðaraðstoðarpakka fyrir Úkraínu.
Washington hefur lagt kapp á að styrkja Úkraínu áður en Donald Trump tekur við forsetastólnum í Hvíta húsinu í byrjun næsta árs.
Hann hefur verið óvæginn við að gagnrýna stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og gefið í skyn að hann muni hugsanlega draga úr honum þegar hann tekur við embætti.
Þá hefur Trump talað um Vladimír Pútín, forseta Rússlands, með aðdáun og fullyrt að hann sjálfur geti bundið enda á stríðið á einum degi, án þess að segja hvernig. Hefur það vakið töluverðan ótta um samband Bandaríkjanna og Rússlands.
Bandarísk stjórnvöld hafa því takmarkaðan glugga til að úthluta þeim milljörðum dala sem þegar er búið að samþykkja í styrki til handa Úkraínumönnum.
Styrkurinn sem Joe Biden tilkynnti á dögunum mun auðvelda Pentagon að senda vopn frá Bandaríkjunum hratt á vígvöllinn.
„Í dag er ég stoltur af því að tilkynna tæplega 2,5 milljarða dala í öryggisaðstoð fyrir Úkraínu, þar sem úkraínska þjóðin heldur áfram að verja sjálfstæði sitt og frelsi frá yfirgangi Rússa,“ var haft eftir Biden í yfirlýsingu.
Sagði Biden því fjármagni, sem þegar hafði verið eyrnarmerkt sem styrkur til Úkraínu, hér með hafa verið úthlutað, eftir miklar samningaviðræður.
Forsetinn sagðist hafa fyrirskipað stjórn sinni að halda áfram að senda Úkraínu eins mikla hernaðaraðstoð og hægt væri, þar á meðal eldri bandarískan búnað, og flýta honum á vígvöllinn.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði aðstoðina hafa komið á mikilvægum tíma þar sem Rússar herði nú árásir sínar.
Hafa norðurkóreskir hermann meðal annars gengið til liðs við rússneskar hersveitir. Þá senda Íran og Norður-Kórea jafnframt vopn til Rússa.
Selenskí hvatti vestræna bandamenn Kænugarðs til að halda áfram að efla varnir landsins, í von um að tryggja endi á átökunum á næsta ári.
„Við verðum að halda áfram að stefna ótrauð að friði til að ná sameiginlegu markmiði okkar um frið árið 2025 - markmiði sem Úkraína og allir bandamenn landsins deila,“ sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðlum.