Flugvél Jeju Air á leið frá Seúl í Suður-Kóreu þurfti að snúa við í gær vegna vandamála með lendingarbúnað.
Þetta sagði suðurkóreska flugfélagið, degi eftir mannskæðasta flugslys Suður-Kóreu frá upphafi.
Flugvélin sem lenti í vandamálum með lendingarbúnaðinn er af tegundinni Boeing 737-800, sem er sama tegund og sú sem brotlenti á sunnudaginn án þess að hafa notað lendingarbúnaðinn, með þeim afleiðingum að 179 manns fórust.
Flugvél Jeju Air á leið frá Gimpo, alþjóðlega flugvellinum Seúl, til Jejú-eyju, lagði af stað um klukkan 6.37 að morgni til en sneri aftur til Gimpo klukkan 7.25 vegna vandamáls sem fannst í lendingarbúnaði skömmu eftir flugtak, að sögn flugfélagsins.
Að sögn suðurkóreskra fjölmiðla ákvað 21 farþegi að fara ekki í aðra flugvél Jeju Air á leið til Jejú-eyju vegna atviksins sem kom upp í gær. Höfðu þeir meðal annars áhyggjur af öryggi sínu.
Alls eru 39 flugvélar af tegundinni Boeing 737-800 í flugvélaflota Jeju Air, sem telur alls 41 flugvél.