Gefa út handtökutilskipun á hendur forsetanum

Yoon Suk Yeol forseti.
Yoon Suk Yeol forseti. AFP

Suðurkóreskur dómstóll hefur gefið út handtökutilskipun á hendur forsetanum Yoon Suk Yeol. 

Handtökutilskipunin var gefin út í kjölfar þess að Yeol hundsaði í þriðja sinn boðun um að mæta til yfirheyrslu vegna herlaganna sem hann lýsti yfir 3. desember.

Yeol hefur verið ákærður fyrir afglöp í starfi. Ef hann verður sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi eða dauðarefsingu. 

Stuðningsmenn forsetans söfnuðust saman fyrir utan heimili forsetans í dag og kölluðu meðal annars: „Lögleg herlög! Ólögleg ákæra!“

Stuðningsmenn forsetans fyrir utan heimili hans í dag.
Stuðningsmenn forsetans fyrir utan heimili hans í dag. AFP

Óljóst er hvort lögregla muni geta framfylgt handtökutilskipuninni þar sem öryggisþjónusta forsetans (PSS) hefur neitað að fara eftir þeim. Suðurkóreskir fjölmiðlar telja að komist verði að samkomulagi við PSS. 

Lögfræðiteymi Yeol sagði handtökutilskipunina vera „ólöglega og ógilda“. Þá ætlar teymið að sækja um lögbann til þess að fá hana ógilda. Hún gildir fram á mánudag.

„Ég kom hingað af því að ég varð í áfalli og mér hryllti við að þeir væru að reyna handtaka forsetann,“ sagði Song Mi-ja, fyrir utan hús forsetans.

Lögregla var send á svæðið þar sem hún sást kalla á mótmælendur að hafa hemil á sér.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert