Aðstandendur nokkurra þeirra sem létust í hryðjuverkinu í New Orleans á nýársnótt hafa birt nöfn hinna látnu. Þar á meðal eru háskólanemi, einstæð móðir fjögurra ára drengs og ung kona sem vildi verða hjúkrunarfræðingur.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Yfirvöld munu ekki greina frá nöfnum þeirra sem létust í árásinni fyrr en krufningu á öllum þeim sem létust er lokið.
Alls létust fimmtán í árásinni og tugir særðust
Martin „Tiger“ Bech var fyrrum leikmaður háskólafótboltaliðs Princeton-háskólans og var andlát hans staðfest í yfirlýsingu frá skólanum.
Martin hlaut viðurnefnið Tiger í liði sínu og segir fyrrum þjálfari hans að enginn annar leikmaður hafi átt viðurnefni sitt jafn mikið skilið.
„Hann var tígur á allan hátt - grimmur keppnismaður með endalausa orku, ástsæll liðsmaður og umhyggjusamur vinur.“
Þá hefur bróðir Martins einnig tjáð sig um andlát hans á miðlinum X þar sem hann segist munu elska hann að eilífu og að hann hafi veitt honum innblástur á hverjum degi.
Nikyra Cheyenne Dedeaux var 18 ára gömul og ætlaði sér að verða hjúkrunarfræðingur. Móðir hennar, Melissa Dedeaux, staðfesti andlát hennar á félagsmiðlum þar sem hún sagðist hafa misst barnið sitt og bað fólk um að biðja fyrir sér og fjölskyldu sinni.
Tjáði móðir hennar fjölmiðli að dóttir hennar hefði ætlað að hefjá nám í hjúkrun seinna í mánuðinum.
Þá greindi hún einnig frá að Nikyra hefði læðst út um kvöldið með vinkonu sinni og frænku sem báðar lifðu árásina af.
Hefur vinkona Nikyru einnig tjáð sig en hún sagði The New York Times að hún hefði fengið símtal frá frænku Nikyru þar sem hún sagði að þær hefðu hlaupið burt þegar þær heyrðu skothvelli og að Nikyra hefði horfið.
Reggie Hunter var 37 ára gamall verslunarstjóri og tveggja barna faðir og var andlát hans staðfest af litla frænda hans, Shirell Robinson Jackson.
Er Reggie lýst sem manneskju sem var full af lífi og er greint frá að hann hafi sent fjölskyldu sinni skilaboð rétt eftir miðnætti þar sem hann óskaði þeim gleðilegs nýs árs.
Þá hefur yngri systir hans sagt að bróðir sinn hafi elskað að vera í kringum fjölskyldu sína.
Kareem Badawi var nemandi í háskólanum í Alabama-ríki og hefur andlát hans verið staðfest af föður hans, Belal Badawi, sem lýsti yfir mikilli sorg og bað guð sinn Allah um að gefa sér og fjölskyldu sinni þolinmæði og styrk til að takast á við fráfall sonar síns.
Þá hefur bekkjarforseti bekksins sem Karem var í einnig tjáð sig og sagst syrgja hann og bað hann fólk um að biðja fyrir þeim sem urðu fyrir áhrifum vegna árásarinnar.
Hubert Gauthreaux var 21 árs.
Andlát hans var staðfest með yfirlýsingu frá gamla menntaskólanum hans, Archbishop Shaw.
„Við biðjum alla Archbishop Shaw-fjölskylduna að biðja fyrir sálu Huberts, fjölskyldu hans og vinum á þessum erfiðu tímum, og öllum þeim sem urðu fyrir áhrifum þessa harmleiks,“ segir í yfirlýsingunni.
Nicole Perez var 27 ára og móðir fjögurra ára drengs.
Vinkona hennar og yfirmaður, Kimberly Usher Fall, sagði Nicole vera einbeitta, klára og góðhjartaða manneskju og hefur hún sett af stað fjáröflun á netinu í minningu Nicole.
Þá greindi hún frá að Nicole hefði nýtt frítíma sinn í vinnunni til að kenna syni sínum stærðfræði í einu geymslurýmanna en Nicole starfaði á veitingastað.
Matthew Tenedorio var 25 ára gamall hljóð- og myndtæknimaður.
Er honum lýst sem afslöppuðum manni með smitandi hlátur sem vakti kátínu þeirra sem voru í kringum hann í fjáröflun sem sett hefur verið af stað í hans nafni.
Móðir hans tjáði fjölmiðlinum NBC News að hún hefði síðast séð son sinn á lífi á gamlárskvöld klukkan 21 og mundi hún eftir að hafa faðmað hann.