Leggja lokahönd á hljóðritið úr flugstjórnarklefanum

Vélin brotlenti á Muan-flugvelli á sunnudag.
Vélin brotlenti á Muan-flugvelli á sunnudag. AFP

Rannsakendur eru að leggja lokahönd á afrit af hljóðriti úr flugstjórnarklefa flugvélar Jeju Air sem brotlenti á sunnudag.

Hljóðritið gæti gefið vísbendingar um hvað varð til þess að vélin brotlenti með 181 manns um borð. Einungis tveir í áhöfninni lifðu af.

Hópur rannsakenda samanstendur af Suður-Kóreumönnum, Bandaríkjamönnum og starfsmönnum Boeing, en vélin var af gerðinni Boeing 737-800. Þeir hafa kembt svæðið í suðvesturhluta Muan frá því að vélin brotlenti.

„Búist er við að vinna við afrit af hljóðritun flugstjórnarklefans (CVR) klárist í dag, og verið er að undirbúa flutning svarta kassans (FDR) til Bandaríkjanna,“ sagði í yfirlýsingu suðurkóreskra stjórnvalda.

Þá tókst að ná í hreyfil vélarinnar af slysstað í vikunni. 

Nákvæm orsök slyssins eru ókunn en rannsakendur hafa bent á bilun í lendingarbúnaði, steinsteyptan vegartálma á flugbrautinni og hóp fugla sem hugsanlegar ástæður. 

Forstjóri Jeju Air sætir nú farbanni á meðan slysið er rannsakað. 

Hreyfill vélarinnar.
Hreyfill vélarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert