Skopmyndateiknarinn Ann Telnaes hefur sagt upp störfum sínum hjá fréttamiðlinum The Washington Post eftir að miðillinn neitaði að birta skopmynd hennar sem sýndi eiganda miðilsins og stofnanda fyrirtækisins Amazon, Jeff Bezos, ásamt öðrum milljarðamæringum krjúpa fyrir Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta.
Ásamt Bezos var einnig á myndinni Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook og Meta, og aðrir athafnamenn úr fjölmiðla- og teiknigeiranum krjúpandi og haldandi uppi pokum fullum af peningum fyrir framan Trump.
Bæði Amazon og Meta hafa tilkynnt að fyrirtækin muni veita Trump eina milljón dollara, eða um 140 milljónir íslenskra króna, sem mun fara í sjóð fyrir innsetningarathöfn hans sem forseta.
Þá var einnig teiknimyndafígúran Mikki Mús krjúpandi á myndinni en Disney-samsteypan á fréttamiðilinn ABC News sem greiddi Trump bætur upp á um 15 milljónir dollara, eða því sem nemur um tveimur milljörðum íslenskra króna, í desember vegna falskra ásakana um nauðgun.
Trump undirbýr sig nú við að taka við forsetaembættinu í Bandaríkjunum og hafa margir forstjórar stórra fyrirtækja, þar á meðal fjölmiðlafyrirtækja, reynt að mynda góð samskipti við verðandi Bandaríkjaforsetann.
Bezos hefur til að mynda ferðast til Flórída til að hitta Trump og það hefur Tim Cook, forstjóri Apple, einnig gert. Þá hafa myndast sterk tengsl á milli Trumps og auðjöfursins Elon Musk.
Skopmyndateiknarinn Ann Telnaes, sem hlotið hefur Pulitzer-verðlaunin ásamt öðrum verðlaunum fyrir skopmyndir sínar, tjáði sig um uppsögnina með færslu á miðlinum Substack.
Segir Telnaes í færslu sinni að þó að skopmyndum hennar hafi áður verið hafnað væri þetta í fyrsta skipti sem skopmynd hennar væri hafnað vegna þess viðfangsefnis sem hún tekur fyrir og segir hún atvikið vera hættulegt fyrir frjálsa fjölmiðlun.
Washington Post, sem hefur slagorðið Lýðræði deyr í myrkri, hefur tjáð sig um atvikið en í yfirlýsingu frá ritstjóra blaðsins, David Shipley, segir að skopmyndinni hafi verið hafnað á þeim grunni að nýbúið var að birta dálk um sama viðfangsefni og skopmyndin tók fyrir.
Þá hafi einnig verið búið að áætla annan dálk og vildi miðilinn því koma í veg fyrir endurtekningu viðfangsefnisins.
Athygli vakti í október á síðasta ári þegar Washington Post sagðist ekki munu lýsa yfir stuðningi við neinn forsetaframbjóðanda í kosningunum en var það í fyrsta skipti í 32 ár sem miðillinn lýsti ekki yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda demókrata.