Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í sjö ríkjum Bandaríkjanna vegna veðurs en mikið vetrarveður ríkir vestanhafs sem hefur áhrif á meira en 60 milljónir manna.
Þúsundum flugferða hefur verið aflýst eða seinkað og segja veðurfræðingar að vetrarstormurinn gæti valdið mestu snjókomu og kulda í meira en áratug.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í ríkjunum Kansas, Missouri, Kentucky, Virginíu, Vestur-Virginíu, Arkansas og hluta New Jersey og viðvaranir um snjóstorm hafa verið gefnar út í Kansas, Missouri og Nebraska.
Í Kansas City hefur ekki snjóað meira í 32 ár en 35-40 sentímetra jafnfallinn snjór er í borginni. Í Washington er spáð mikilli snjókomu og nístingskulda í dag en bandaríska þingið kemur saman í Washington í dag til að staðfesta formlega kjör Donalds Trumps sem forseta.
Meira en 1.700 flugferðum til og frá Bandaríkjunum var aflýst í gær og um 8.300 til viðbótar seinkuðu, samkvæmt FlightAware.com.
Þá er einnig mikið vetrarríki í Kanada og í miðhéraði Manitoba gæti frostið farið niður í 40 stig að sögn veðurfræðinga.