Starmer svaraði Musk á heitum blaðamannafundi

Starmer hélt blaðamannafund um heilbrigðiskerfið í morgun en flestar spurningar …
Starmer hélt blaðamannafund um heilbrigðiskerfið í morgun en flestar spurningar snérust um ummæli Musks á samfélagsmiðlum. AFP/Leon Neal

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, gagnrýnir fólk harðlega fyrir að „dreifa lygum“ um gengi í Bretlandi sem misnotuðu börn kynferðislega. Hann segir ekki þörf á opinberri rannsókn á umfangsmiklum kynferðisbrotum gegn börnum sem áttu sér stað í Norður-Englandi þegar hann var ríkissaksóknari.

Forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi í morgun: „Þeir sem dreifa lygum og röngum upplýsingum eins víða og hægt er, þeir hafa ekki áhuga á fórnarlömbunum, þeir hafa áhuga á sjálfum sér.“

Heit umræða hefur blossað upp í Bretlandi og ekki síst fyrir tilstuðlan Elons Musk. Hann hefur kallað eftir því að ríkisstjórnin láti framkvæma opinbera rannsókn á misnotkun gengja á breskum stúlkum áratugum saman í Norður-Englandi til ársins 2013.

„Málaskrá mín er opin“

Leiðtogar Íhaldsflokksins og Endurbótaflokksins hafa einnig kallað eftir opinberri rannsókn á skandalnum en þeir halda því fram að Starmer og lögregluyfirvöld hafi brugðist stúlkum með því að bregðast ekki við af hörku vegna þess að gerendur voru margir af pakistönskum uppruna.

Elon Musk hefur vegið hart að Starmer á X undanfarna daga fyrir hans hlut sem ríkissaksóknara. Fyrir skömmu skrifaði Musk á Twitter að Starmer væri samsekur í fjöldanauðgunum til að tryggja sér atkvæði.

„Málaskrá mín er opin. Það er ekkert leyndarmál að vera ríkissaksóknari. Hvert einasta mál sem ég ákærði í fór fyrir dómstóla og var skoðað af dómara,“ sagði Starmer.

Hann sagði mikilvægt að beitt og opinská umræða ætti sér stað í stjórnmálum en að hún yrði að vera byggð á staðreyndum en ekki lygum.

Hafnaði beiðni borgarráðs Oldham

Borgarráðið í Oldham sendi ríkisstjórn Starmers beiðni í fyrra um að opinber rannsókn yrði gerð á kynferðisbrotunum sem áttu sér stað áratugum saman allt til ársins 2013 en Jesse Phillips, ráðherra í ríkisstjórn Starmers, hafnaði beiðninni.

Elon Musk sagði að Phillips ætti skilið að fara í fangelsi fyrir að neita því að láta framkvæma opinbera rannsókn.

„Jess Phillips þarf ekki á mér eða öðrum að halda til að tala fyrir sína hönd, en þegar eitur öfga-hægrimanna leiðir til alvarlegra hótana við Jess Phillips og aðra, þá er í minni bók farið yfir strikið,“ sagði Starmer um ummæli Musks.

Fjölda stúlkna nauðgað

Stúlkur allt niður í 11 ára gamlar voru tældar og þeim nauðgað í fjölda bæja í Englandi, þar á meðal Oldham, Rochdale, Rotherham og Telford, fyrir rúmum áratug. Hneykslið var afhjúpað árið 2013.

Árið eftir birtist skýrsla prófessorsins Alexis Jay þar sem fram kom hve umfangsmikil misnotkunin var í Rotherham á árunum 1997 til 2013, þar sem um 1.400 stúlkur voru misnotaðar.

Fram kom að lögregla og félagsþjónusta hefðu ekki gripið inn í.

Telegraph
Sky News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert