Fimm eru látnir í Bandaríkjunum vegna vetrarveðurs sem gengur nú yfir sum ríki landsins.
Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá.
Greint var frá fyrr í dag að þúsundum flugferða hefði verið aflýst eða seinkað og að veðurfræðingar hefðu sagt að vetrarstormurinn gæti valdið mestu snjókomu og kulda í meira en áratug.
Þá var neyðarástandi lýst yfir í ríkjunum Kansas, Missouri, Kentucky, Virginíu, Vestur-Virginíu, Arkansas og hluta New Jersey og viðvaranir um snjóstorm hafa verið gefnar út í Kansas, Missouri og Nebraska.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins segir að maður hafi fundist látinn fyrir utan strætóskýli í borginni Houston í Texas fyrr í kvöld og að hann hafi látist sökum veðursins.
Einnig lést manneskja í Missouri sem var vegfarandi á götu þar sem vörubíll byrjaði að renna til á veginum.
Tveir létust í Kansas eftir að hafa lent í bílslysi sökum slæmra veðurskilyrða og er dæmi um annað dauðsfall í Virginíuríki af sömu ástæðum.
Þá lést 32 ára gamall karlmaður rétt eftir miðnætti að staðartíma í Virginíuríki eftir að hafa misst stjórn á bíl sínum og klesst á tré. Segja yfirvöld að maðurinn hafi verið að keyra of hratt miðað við veðurskilyrði en einnig var hann ekki í belti og gæti hafa verið undir áhrifum áfengis.
BBC greinir einnig frá að meira en 23.000 flugferðum hafi verið seinkað í Bandaríkjunum í dag og yfir 2.000 flugferðum aflýst.