Hefur áhyggjur af afskiptum Musk

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. AFP

Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, kveðst áhyggjufullur yfir ummælum auðjöfursins og eiganda samfélagsmiðilsins X, Elon Musk, um innanríkismál Evrópuþjóða.

„Mér þykir það áhyggjuefni að maður með svo mikinn aðgang að samfélagsmiðlum og fjármunum hafi svo mikil afskipti af innanríkismálum annarra landa. Svona eiga hlutirnir ekki að ganga fyrir sig á milli lýðræðisríkja og bandamanna þeirra,“ sagði Støre við NRK.

Støre var spurður hvort hann hefði áhyggjur af hugsanlegum afskiptum Musk af norskum kosningum og kvaðst vona að norskt stjórnmálaumhverfi væri nógu sterkt til að varast slíkt.

Musk er einn helsti bandamaður Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, og var nýlega ráðinn sem annar stjórnenda nýs hagræðingarráðuneytis í ríkisstjórn Trump.

Lýsti yfir stuðningi við AfD

Fór auðjöfurinn mikinn á samfélagsmiðli sínum, X, yfir hátíðirnar og lét ekki standa á skoðunum sínum um innanríkismál hinna ýmsu Evrópuríkja.

Lýsti hann til að mynda yfir stuðningi sínum við þýska öfgahægriflokkinn Alternati­ve für Deutsch­land (AfD), fordæmdi forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, og sagði formann Reform UK-flokksins, Nigel Farage, ekki vera leiðtogasætinu vaxinn. 

Musk hefur hlotið talsverða gagnrýni fyrir ummælin og hafa sumir þýskir stjórnmálamenn sagt stuðningsyfirlýsingu hans við AfD vera tilraun til þess að hafa áhrif á kosninganiðurstöður, en boðað var til skyndikosninga þann 23. febrúar í Þýskalandi eftir að ríkisstjórnin sprakk í nóvember.

Hyggst Musk ræða við kanslaraframbjóðanda AfD, Alice Weidel, í beinu streymi á X fyrir kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert