Tugir manna látnir eftir öflugan jarðskjálfta í Tíbet

Frá Kathmandu, höfuðborg Nepal.
Frá Kathmandu, höfuðborg Nepal. AFP

Staðfest hefur verið að minnsta kosti 53 hafi látist og 62 séu slasaðir eftir að stór jarðskjálfti reið yfir fjalllendi í Tíbet í nótt.

Kínverskir ríkisfjölmiðlar greindu frá þessu en jarðskjálftinn reið yfir klukkan 9 að staðartíma og var hann 7,1 að stærð. Jarðskjálftinn átti upptök sín á um tíu kílómetra dýpi við Himalaya-fjöll nærri landamærum Nepal samkvæmt upplýsingum frá bandarísku jarðfræðistofnuninni en margir minni eftirskjálftar mældust.

Skjálftinn fannst einnig í nágrannaríkinu Nepal og hlutum Indlands en jarðskjálftar eru algengir á svæðinu sem liggur á stórri jarðfræðilegri misgengislínu.

53 eru látnir og tugir manna eru slasaðir.
53 eru látnir og tugir manna eru slasaðir. AFP

Yfirvöld í Kína segja að skjálftinn hafi mælst 6,8 að stærð og að á annað þúsund hús hafi stórskemmst. Víða er rafmagnslaust og margir vegir eru illa farnir.

Forseti Kína, Xi Jinping, hefur hvatt til allsherjar leitar- og björgunaraðgerða til að lágmarka mannfall.

Árið 2015 varð jarðskjálfti sem mældist 7,8 stig nærri Kathmandu, höfuðborg Nepal. Næstum 9.000 manns biðu þá bana og yfir 20.000 slösuðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert