Carter lagður í þinghúsið

Jarðneskar leifar Bandaríkjaforsetans fyrrverandi, Jimmys Carters, voru í gær fluttar með viðhöfn á vegum hersins til þinghússins Capitol Hill í höfuðborginni Washington þar sem þær munu hvíla þar til formleg útför á vegum ríkisins verður gerð á morgun, fimmtudag.

Er gert ráð fyrir að allir fjórir fyrrverandi Bandaríkjaforsetarnir, sem á lífi eru, Bill Clinton, George W. Bush, Barack Obama og Donald Trump, sæki útför Carters, en sá síðasttaldi þeirra, Trump tekur öðru sinni við forsetaembætti síðar í mánuðinum.

Líkkista 39. forseta Bandaríkjanna, Jimmys Carters, í kringlu Capitol Hill-þinghússins.
Líkkista 39. forseta Bandaríkjanna, Jimmys Carters, í kringlu Capitol Hill-þinghússins. AFP/Allison Robbert

Carter var hundrað ára að aldri þegar hann lést 29. desember en hann gegndi embætti sínu kjörtímabilið 1977 til 1981 og vann ötullega að mannúðarmálum að því loknu – starf sem aflaði honum friðarverðlauna Nóbels árið 2002.

Ekið frá minnismerki um fallna sjóliða

Í beinni sendingu vefmyndavélar á vegum PBS-sjónvarpsstöðvarinnar mátti sjá fjölda fólks ganga gegnum kringlu þinghússins til að votta fyrrverandi forsetanum látna virðingu sína og námu margir staðar og spenntu greipar sínar í þögn.

„Ég vottaði Jimmy Carter forseta virðingu mína í dag þar sem hann liggur í þinghúsinu,“ skrifaði Lloyd Austin varnarmálaráðherra á samfélagsmiðilinn X. „Fyrir hönd ráðuneytisins alls sameinumst við fjölskyldu Carters og öllum Bandaríkjamönnum í minningunni um einstakt lífshlaup hans, arfleifð og þjónustu hans við þjóð okkar,“ ritaði ráðherra þar enn fremur.

Borgarar landsins hafa fjölmennt í þinghúsið til að kveðja forseta …
Borgarar landsins hafa fjölmennt í þinghúsið til að kveðja forseta sinn fyrrverandi og votta honum virðingu. AFP/Jon Cherry

Ók herinn með líkkistu Carters, skrýdda þjóðfána Bandaríkjanna, frá minnismerkinu um fallna sjóliða, US Navy Memorial, að þinghúsinu – sömu leið, en í öfuga átt, miðað við skrúðgönguna sem gengin var við innsetningarathöfn forsetans árið 1977, en Carter gegndi flotaþjónustu á fimmta og sjötta áratug liðinnar aldar, lengst af á kafbátnum SSK-1.

Fyrstur til að ná hundrað ára aldri

Þrettán fyrri forsetar landsins hafa verið lagðir í þinghúsið fyrir útför, Carter sá þrettándi, en Abraham Lincoln var sá fyrsti sem þar var lagður eftir að John Wilkes Booth skaut hann til bana í Ford-leikhúsinu í Washington 14. apríl 1865.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir þjóðarsorg á morgun, útfarardaginn, og verða ríkisstofnanir lokaðar af því tilefni.

Jimmy Carter er fyrstur Bandaríkjaforseta frá upphafi til að ná hundrað ára aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert