Heimili hinna ríku og frægu eru ekki undanskilin náttúruhamförum sem herja á úthverfi Los Angeles-borgar í Kaliforníu.
Samkvæmt BBC eru margar Hollywood-stjörnur til húsa í Palisades-hverfi þar sem fyrsti eldurinn kom upp í gærmorgun og breiddi úr sér á ógnarhraða.
Schitt's Creek-leikarinn Eugene Levy er einn þeirra sem búa í Palisades og tjáði fjölmiðlum í Kaliforníu að hann hefði neyðst til að yfirgefa heimili sitt vegna eldanna.
„Reykurinn virtist svartur og þykkur yfir Temescal-gljúfrinu. Ég sá enga eldsloga en reykurinn var mjög dökkur,“ sagði Levy í samtali við Los Angeles Times.
Leikarinn Steve Guttenberg, sem er einna best þekktur fyrir leik sinn í Police Academy-kvikmyndunum, lagði viðbragðsaðilum lið við að færa bíla til að rýma fyrir slökkviliðsbíla sem þurftu að komast að. Í samtali við sjónvarpsstöð í Kaliforníu biðlaði hann til íbúa að færa bílana sína.
„Það sem er að gerast er að fólk tekur lyklana með sér eins og þetta séu á bílastæði. Þetta er ekki bílastæði. Fólk verður að færa bílana sína.”
Aðrar stjörnur sem eru taldar eiga heimili á svæðinu eru m.a. Tom Hanks, Jennifer Aniston, Reese Witherspoon og körfuboltastjarnan Kawhi Leonard.
Star Wars-stjarnan Mark Hamill birti færslu á Instagram og kvaðst þar hafa yfirgefið heimili sitt í Malibu svo seint að litlir eldar hefðu verið báðum megin við Pacific Coast-hraðbrautina.
Leikarinn James Woods birti myndskeið af útsýninu frá heimili sínu áður en eldarnir brutust út og sagði erfitt að ímynda sér að heimili hans gæti verið brunnið til kaldra kola innan skamms og sagði það nánast vera eins og að missa ástvin.
James hefur viðrað efasemdir sínar um loftslagsbreytingar á síðustu árum og virðast eldarnir síður en svo hafa sannfært hann en í næsta tísti tekur hann fyrir að eldarnir tengist loftslagsbreytingum og segir þá frekar til merkis um tóma vatnsgeyma og lélegar brunavarnir.
Sérfræðingar segja að hækkandi hitastig á heimsvísu geri Kaliforníu berskjaldaðri fyrir eldsvoðum og útbreiðslu þeirra, jafnvel þótt eldurinn sjálfur kvikni af öðrum ástæðum. Helsta orsök þess hve hratt eldarnir hafa breiðst út í Palisades-hverfi er mikill vindur og þurrkur.