Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum að fylgja öllum tilmælum viðbragðsaðila vegna skógarelda sem þar geisa. Enginn Íslendingur hefur óskað borgaraþjónustuna um aðstoð.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Yfir 200 þúsund heimili og byggingar eru án rafmagns vegna ægilegra skógarelda sem geisa nú í Los Angeles. Um er að ræða þrjá skógarelda í úthverfum Los Angeles og tugþúsundir hafa verið fluttir á brott.
Engar beiðnir um aðstoð hafa borist borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá íslenskum ríkisborgurum vegna skógarelda í Kaliforníu.
„Utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála og brýnir fyrir íslenskum ríkisborgurum á svæðinu að fara í einu og öllu eftir tilmælum viðbragðsaðila og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum,“ segir í svari ráðuneytisins.
Skógareldarnir kviknuðu um miðjan morgun. Þeir breiddust hratt út og komu mörgum íbúum í opna skjöldu.
Slökkviliðsmenn hafa notað jarðýtur til að ýta tugum farartækja úr vegi en skelkaðir íbúar yfirgáfu bíla sína á eina veginum inn úr hinu glæsilega Pacific Palisades-svæði og flúðu fótgangandi frá tæplega 3.000 hektara eldi sem fór yfir svæði þar sem margar glæsivillur urðu eldinum að bráð.