Hvetja Íslendinga til að fylgja tilmælum

Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum að fylgja öllum tilmælum viðbragðsaðila vegna skógarelda sem þar geisa. Enginn Íslendingur hefur óskað borgaraþjónustuna um aðstoð.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Yfir 200 þúsund heim­ili og bygg­ing­ar eru án raf­magns vegna ægi­legra skógar­elda sem geisa nú í Los Ang­eles. Um er að ræða þrjá skógar­elda í út­hverf­um Los Ang­eles og tugþúsund­ir hafa verið flutt­ir á brott. 

Engar beiðnir um aðstoð af hálfu Íslendinga

Engar beiðnir um aðstoð hafa borist borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá íslenskum ríkisborgurum vegna skógarelda í Kaliforníu.

„Utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála og brýnir fyrir íslenskum ríkisborgurum á svæðinu að fara í einu og öllu eftir tilmælum viðbragðsaðila og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum,“ segir í svari ráðuneytisins. 

Eldarnir komu íbúum í opna skjöldu

Skógar­eld­arn­ir kviknuðu um miðjan morg­un. Þeir breidd­ust hratt út og komu mörg­um íbú­um í opna skjöldu.

Slökkviliðsmenn hafa notað jarðýtur til að ýta tug­um far­ar­tækja úr vegi en skelkaðir íbú­ar yf­ir­gáfu bíla sína á eina veg­in­um inn úr hinu glæsi­lega Pacific Palisa­des-svæði og flúðu fót­gang­andi frá tæp­lega 3.000 hekt­ara eldi sem fór yfir svæði þar sem marg­ar glæsi­vill­ur urðu eld­in­um að bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert