Munu ekki leyfa árásir á aðildarríki

Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands.
Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Frakkland hefur varað Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, við því að hóta ríki innan við landamæri Evrópusambandsins eftir að Trump útilokaði ekki að hernaðaraðgerðum gæti verið beitt til þess að ná Grænlandi á vald Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Noel Barrot, tjáði sig um ummæli Trumps fyrr í dag þar sem hann sagði að Evrópusambandið myndi ekki leyfa öðrum þjóðum að ráðast á landamæri sín, sama um hvaða þjóðir væri að ræða.

Segir Grænland vera evrópskt landsvæði

Þá sagði hann Grænland vera evrópskt landsvæði en Grænland er sjálfstjórnarhérað Danmerkur sem er í Evrópusambandinu.

Í desember sagði Trump á miðli sínum Truth Social að eignarhald Bandaríkjanna á Grænlandi væri nauðsyn í þágu alheimsfriðar og -öryggis.

Í kjölfarið lýsti forsætisráðherra Grænlands, Mute Egede, því yfir að Grænland væri ekki til sölu og tilheyrði Grænlendingum.

Segir að Bandaríkin séu ekki að fara ráðast inn í Grænland

Á blaðamannafundi í gær kvaðst Trump ekki útiloka þann möguleika að bandaríska hernum yrði beitt til þess að ná Grænlandi á sitt vald.

„Ef þú spyrð mig hvort Bandaríkin séu að fara að ráðast inn í Grænland þá er svarið nei,“ sagði Barrot við útvarpsmiðilinn France Inter Radio fyrr í dag.

Þá sagði hann einnig að ummæli Trumps ættu ekki að valda Evrópusambandinu áhyggjum en tók þó fram að það þyrfti að styrkja sig hernaðarlega þar sem lögmál hins sterkasta ríkir.

Hann sagðist einnig ekki telja að Bandaríkin væru að koma á heimsvaldastefnu og tók fram að hann trúði því að það væri ekki að breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert