Þó svo að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, geri sér vonir um að kaupa Grænland er Antony Blinken, fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á öðru máli og segir að ekkert muni verða af kaupunum.
„Þetta er ekki að fara að gerast og því engin ástæða til að eyða tíma í þetta,“ sagði Blinken á blaðamannafundi í París fyrr í dag.
Trump hefur sagt að eignarhald Bandaríkjanna á Grænlandi sé nauðsynlegt í þágu alheimsfriðar og -öryggis. Hefur Trump einnig gefið út að hann útiloki ekki að beita hervaldi til að ná Panamaskurðinum og Grænlandi á sitt land.
Sonur Trump, Donald Trump yngri, heimsótti Grænland í gær. Hann útilokaði að ferðin hefði verið með það í huga að festa kaup á landinu og kvaðst hann vera staddur þar sem ferðamaður.
Grænland er sjálfsstjórnarsvæði sem heyrir undir Danmörku. Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur síðustu daga ítrekað að Grænland tilheyri Grænlendingum.