Skógareldar í Los Angeles: Tugþúsundir fluttir á brott

Hús er alelda í Pacific Palisades hverfinu.
Hús er alelda í Pacific Palisades hverfinu. AFP

Miklir skógareldar eru í úthverfi Los Angeles í Kaliforníu og hefur um 30 þúsund manns verið skipað að yfirgefa heimili sín.

Kristin Crowley, slökkviliðsstjóri í Los Angeles, segir að engar fregnir hafi borist af dauðsföllum eða meiðslum en hundruð slökkviliðsmanna eru komnir á svæðið og berjast við eldana á jörðu niðri og í lofti. Eldarnir dreifðu sér hratt en öflugir vindar hafa torveldað slökkvistarf.

Hundruðir slökkviliðsmanna berjast við skógareldana.
Hundruðir slökkviliðsmanna berjast við skógareldana. AFP

Slökkviliðsmenn hafa notað jarðýtur til að ýta tugum farartækja úr vegi en skelkaðir íbúar yfirgáfu bíla sína á eina veginum inn úr hinu glæsilega Pacific Palisades-svæði og flúðu fótgangandi frá tæplega 3.000 hektara eldi sem fór yfir svæði þar sem margar glæsivillur urðu eldinum að bráð.

Skógareldarnir kviknuðu um miðjan morgun. Þeir breiddust hratt út og komu mörgum íbúum í opna skjöldu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti, sem var í Los Angeles vegna fyrirhugaðrar tilkynningar um nýjar þjóðminjar, sagði að hann væri vel upplýstur um skógareldana og hefur boðið alla alríkisaðstoð sem þarf.

 

 

Fólk tekur myndir frá Will Rogers State Beach í Pacific …
Fólk tekur myndir frá Will Rogers State Beach í Pacific Palisades hverfinu í Los Angeles. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert