Taka verður hugmyndir Donalds Trumps verðandi Bandaríkjaforseta, um að festa kaup á Grænlandi, alvarlega en ekki bókstaflega.
Þetta sagði Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, í dag.
Hann segir að Grænland geti orðið að sjálfstæðu ríki sé það vilji íbúa en hann segir ólíklegt að landið muni heyra undir Bandaríkin.
Grænland er sjálfsstjórnarríki sem heyrir undir Danmörku. Síðustu daga hafa borist fregnir af því að Donald Trump hyggist festa kaup á landinu.
Trump segist telja nauðsynlegt fyrir alheimsfrið og -öryggi að Bandaríkin hafi eignarhald á Grænlandi.
Í gær útilokaði Trump ekki að beita hervaldi til að ná Grænlandi á sitt vald. Sama dag fór elsti sonur Trumps, Donald Trump yngri, í heimsókn til Grænlands.
Í kvöldfréttum danska ríkisútvarpsins sagði Rasmussen að það væru „augljóslega“ einhverjir bandarískir hagsmunir á Grænlandi sem snerust um öryggisstefnuna í heiminum.
„Það eru Bandaríkjamenn sem vilja tryggja öryggi sitt. Ef það er það sem málið snýst um munum við finna lausn á því.“
Rasmussen telur Danmörku ekki vera í alþjóðakreppu. Hann telur mikilvægt að fólk haldi ró sinni yfir málinu þar til komist verði að því hvað Trump hyggst vilja í raun og veru.
„Ég held við séum ekki í alþjóðakreppu. Við erum opin fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn um hvernig við getum unnið betur saman,“ sagði Rasmussen í dag.
Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði leiðtoga á danska þinginu til fundar á morgun vegna málsins.