Kom úr felum og var handtekin

Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar.
Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar. AFP

Leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Venesúela, Maria Cor­ina Machado, var hand­tek­in í höfuðborg­inni Caracas eft­ir margra mánaða fel­ur, en var lát­in laus aft­ur skömmu síðar.

Machado var hand­tek­in á mót­mæl­um gegn for­seta lands­ins, Nicolas Maduro, en ekki hafði sést til henn­ar í marga mánuði í kjöl­far for­seta­kosn­ing­anna í land­inu sem Maduro seg­ist hafa unnið. Til stend­ur að vígja hann í embættið í þriðja sinn á morg­un.

Í tísti á X sögðu stuðnings­menn Machado átta lög­reglu­menn hafa skotið á mótor­hjól sem hún var farþegi á og flutt hana á brott með valdi en hún hafi síðar verið lát­in laus úr haldi eft­ir að hafa verið þvinguð til þess að „taka upp nokk­ur mynd­skeið“.

Sagði í tíst­inu að Machado myndi ávarpa þjóðina síðar í dag um at­b­urði dags­ins.

„Ég er hér“

Machado hafði til­kynnt fyr­ir fram um komu sína á sam­fé­lags­miðlin­um X með orðunum: „Ég er hér,“ og upp­skar mik­inn fögnuð er hún birt­ist á mót­mæl­un­um í dag. 

Flutti hún þar mikla eldræðu fyr­ir þúsund­ir mót­mæl­enda og sagði íbúa Venesúela ekki hrædda við Maduro.

Spurð hvort hún óttaðist hand­töku í viðtali svaraði Machado að hún væri meðvituð um áhætt­una en að hún væri sömu­leiðis meðvituð um skyld­ur sín­ar.  

„Ég þarf að vera með fólk­inu okk­ar núna.“

Segj­ast hafa sigrað með 67% at­kvæða

Stjórn­ar­andstaðan í land­inu hef­ur mót­mælt niður­stöðum kosn­ing­anna í fyrra harðlega og held­ur því fram að þau hafi sigrað með 67% at­kvæða.

Hand­töku­skip­un var gef­in út á hend­ur Machado og Ed­mundo Gonzá­les Urrutia, for­seta­efni flokks­ins, eft­ir að þau drógu sig­ur Maduro í efa, og fóru þau bæði í fel­ur í kjöl­farið og hef­ur sá síðar­nefndi flúið land.

Lands­kjör­stjórn í Venesúela, sem ein­ung­is er skipuð sam­flokks­mönn­um Maduros, hef­ur gefið út að Maduro hafi hlotið 51,2% greiddra at­kvæða, en Gonzá­les 44,2%, en hafa ekki getað sýnt fram á gögn því til stuðnings.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert