Alvarlega særður eftir hnífstungu

Maður er alvarlega særður eftir hnífstungu í Ósló. Slíkum árásum …
Maður er alvarlega særður eftir hnífstungu í Ósló. Slíkum árásum fjölgaði mjög árin 2021 til '23 en lítur út fyrir að hafa fækkað nokkuð í fyrra þótt heildartölur fyrir árið liggi ekki fyrir. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á þrítugsaldri liggur alvarlega særður á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló í Noregi eftir að hann var stunginn með eggvopni í almenningsgarði í Gamlebyen þar í borginni undir kvöld í fyrradag.

Lagði lögregla hald á hníf sem fannst á vettvangi, en í gær, fimmtudag, hafði enginn enn sem komið var verið handtekinn vegna málsins. Kvaðst lögregla þó í samtali við norska ríkisútvarpið NRK hafa fengið upplýsingar um nafngreindan árásarmann sem lægi undir grun.

Líkast til ekki hnífurinn sem beitt var

„Við reiknum ekki með að árásarmennirnir hafi verið fleiri,“ sagði Johan Jahr, yfirmaður ofbeldisbrotadeildar lögreglunnar í Ósló, við NRK í gær, en lögregla beitti þyrlu við leit að árásarmanninum fyrstu tímana eftir atburðinn.

Að sögn Steinars Bjerke varðstjóra er hnífurinn sem fannst á vettvangi líkast til ekki sá sem notaður var við að veita fórnarlambinu áverka. Gengur lögregla út frá því að árásarmaðurinn og sá sem misgert var við þekkist.

Vinnur lögregla nú enn að því að ræða við vitni, en fjöldi fólks var staddur nærri vettvangi og hringdu margir í neyðarnúmer lögreglu þegar maðurinn varð fyrir árásinni.

Mikil fjölgun tilfella undanfarin ár

Árásum þar sem hnífum er beitt hefur fjölgað frá ári til árs í Ósló frá heimsfaraldri. Voru þær 63 árið 2021, 81 árið 2022 og 96 árið 2023. Heildarfjöldinn á árinu sem var að líða liggur ekki fyrir en í samantekt Nettavisen í byrjun nóvember yfir ofbeldisbrot með hníf í öllum lögregluumdæmum Noregs samanlagt voru slík brot þá orðin 152 á árinu, en voru árin á undan 242 (2021), 280 (2022) og 305 (2023) svo á landsvísu fækkaði slíkum ofbeldisbrotum árið 2024. Tölur liggja þó ekki fyrir frá höfuðborginni einni og sér.

NRK

ABC Nyheter

VG

Samantekt Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert