Bandarísk yfirvöld hafa boðið 25 milljónir bandaríkjadala í verðlaun fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku forseta Venesúela, Nicolas Maduro, eða um 3,5 milljarða króna.
Maduro var í dag vígður í forsetaembættið og hófst þar með hans þriðja sex ára kjörtímabil.
Maduro kveðst hafa sigrað kosningarnar með 51,2% greiddra atkvæða, en stjórnarandstaðan segir Edmundo Gonzáles hafa verið réttmætan sigurvegara með 67% atkvæða. Hefur Gonzáles neyðst til að flýja land í kjölfarið.
Alþjóðasamfélagið hefur einnig dregið sigur Maduro í kosningunum í fyrra í efa, en landskjörstjórn Venesúela er alfarið skipuð af samflokksmönnum hans og hefur stjórnin ekki getað sýnt fram á gögn til að styðja mál sitt.
Hafa Bandaríkin einnig boðið háar fjárhæðir fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku og/eða sakfellingar innanríkisráðherrans, Diosdado Cabello og Vladimir Padrino varnarmálaráðherra landsins.
Bretar, Evrópusambandið og Kanada hafa einnig ákveðið að beita Maduro og aðra embættismenn refsiaðgerðum eða takmörkunum.
Bandaríkin ákærðu Maduro árið 2020 og aðra háttsetta embættismenn í Venesúela fyrir „fíkniefnahryðjuverk“ og sögðu þá hafa stuðlað að innflutningi mikils magns kókaíns til Bandaríkjanna í þeim tilgangi að stofna lífi og heilsu Bandaríkjamanna í hættu.
Bandaríkin höfðu dregið úr olíuþvingunum gegn Venesúela tímabundið í von um að það myndi hvetja Maduro til að halda frjálsar og lýðræðislegar kosningar, en svo varð ekki.
Maduro hefur kennt Bandaríkjunum og þvingunum þeirra um efnahagshrun Venesúela og segir þvinganirnar ólögmætar og einkennast af heimsvaldastefnu. Gagnrýnendur Maduro kenna spillingu og efnahagslegri óstjórn um bága efnahagsstöðu landsins.