„Guði sé lof, það var þarna enn“

Einhverjir íbúar hafa verið ótrúlega heppnir og heimili þeirra standa …
Einhverjir íbúar hafa verið ótrúlega heppnir og heimili þeirra standa enn. AFP/Mario Tama

Á sama tíma og gríðarleg eyðilegging hefur orðið vegna gróðurelda í Los Angeles-sýslu í Kaliforníuríki og þúsundir hafa misst heimili sín, þá hefur það komið einstaka íbúum á óvart að koma að heimilum sínum óskemmdum.

Þrátt fyrir að eldar hafi logað þar allt í kring og eldhnöttum rignt yfir svæðið þegar þau flúðu að heiman.

Einn þeirra er Camoron Hudson, íbúi í Altadena, sem lýsti upplifun sinni í samtali við fréttamann. „Þegar ég yfirgaf heimili mitt á mánudagsmorgun þá rigndi yfir okkur glóð á stærð við golfbolta. Það var óbærilegt, það var svo mikill reykur og logandi eldhnettir, þetta var eins og í lélegri bíómynd,“ sagði Hudson.

Þegar hann fór svo til að athuga með heimilið sitt daginn eftir var það alveg óskemmt.

Hundruð heimila og fyrirtækja í Altadena hafa hins vegar orðið eldinum Eaton-eldinum að bráð.

AFP/Zoë Meyers

Ein af þeim heppnu

Jessica G, sem búið hefur í Altadena alla ævi, var líka ein af þeim heppnu. Hún hélt hún hefði misst heimili sitt.

„Við gerðum ekki ráð fyrir að það væri neitt eftir, en þegar við keyrðum upp hlíðina og sáum það, Guði sé lof, það var þarna enn,“ sagði Jessica.

„Við erum svo heppin, en ég er svo sorgmædd fyrir hönd þeirra sem bjuggu í götunni.“

AFP/Agustin Paullier

Yfir 9 þúsund heimili, fyrirtæki og aðrar byggingar hafa skemmst eða eyðilagst vegna Palisades og Eaton-eldanna í Los Angeles. Þá er staðfest að tíu hafa látist.

Enn loga eldar á fimm svæðum: Palisades, Eaton, Kenneth, Hurst og Lidia. Yfirvöld í Kaliforníu segja að 4.700 slökkviliðsmenn séu að störfum. Bæta á í vind í dag og verða þá aðstæður enn verri en áður vegna mikilla þurrka. Lítið hefur rignt það sem af er vetri og engin rigning er í kortunum.



AFP/Patrick T. Fallon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert