Gróðureldarnir í Los Angeles-sýslu í Kaliforníuríki geisa enn og nú er talið að lágmarki tíu manns séu látnir. Hátt í 200 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín og ekki er ljóst hvenær hamfarirnar taka enda.
Yfir níu þúsund heimili, fyrirtæki og aðrar byggingar hafa skemmst eða eyðilagst vegna Palisades og Eaton-eldanna í Los Angeles.
Enn eru eldar á fimm svæðum, Palisades, Eaton, Kenneth, Hurst og Lidia. Yfirvöld í Kaliforníu segja að 4.700 slökkviliðsmenn séu að störfum og þá hefur verið gripið til þess ráðs að fá 800 fanga til að taka þátt í björgunarstörfum.
Dröfn Ösp Snorradóttir Rozas, sem hefur verið búsett í Kaliforníu síðastliðin tólf ár sagði í samtali við mbl.is í gær að hún hefði aldrei verið jafn hrædd síðan hún flutti til Los Angeles.
„Þetta er bara allt svo skelfilegt að ég hef aldrei verið svona hrædd síðan ég flutti til Los Angeles,“ sagði Dröfn.
Gróðureldarnir í Los Angeles eru taldir verða þeir kostnaðarsömustu í sögu Bandaríkjanna.
Að mati tryggingasérfræðings fjármálafyrirtækisins J.P. Morgan, Jimmy Bhullar, nálgast heildartjón vegna eldanna um 50 milljarða bandaríkjadala, eða um sjö billjónir íslenskra króna.