Vladimír Pútín Rússlandsforseti er opinn fyrir viðræðum við Donald Trump, sem tekur við sem forseti í Bandaríkjunum að nýju 20. janúar. Staðfesti talsmaður Pútíns að verið væri að undirbúa fund á milli þeirra tveggja.
Sagði talsmaðurinn, Dmitry Peskov, að Pútín hefði ítrekað sýnt áhuga á að hitta aðra þjóðarleiðtoga, meðal annars forseta Bandaríkjanna.
Meðal loforða Trumps fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum var að hann myndi enda stríðið á milli Rússlands og Úkraínu sem nú hefur staðið í um þrjú ár. Hann hefur þó aldrei lagt fram nánari lýsingu á plani um hvernig hann ætli að fara að því.
Í gær upplýsti Trump á fundi með ríkisstjórum Repúblikanaflokksins á Mar-a-Lago í Flórída að Pútín vildi funda með sér og að verið væri að skipuleggja fundinn.
Peskov sagði að engin skilyrði væru af hálfu Pútíns fyrir fundinum. Það eina sem væri nauðsynlegt væri sameiginlegur áhugi beggja aðila til að „leysa vandamálin með samtali“.
Bandaríkjamenn hafa veitt Úkraínumönnum aðstoð síðan Rússland hóf innrás sína í landið í febrúar 2022, en aðstoðin er upp á tugi milljarða dala. Hefur Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagt að slíkur stuðningur sé forsenda þess að Úkraína tapi ekki stríðinu.