Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti hlaut rétt í þessu áfellisdóm án refsingar fyrir dómstól í New York vegna greiðslna sinna til klámstjörnunnar Stormy Daniels fyrir þögn hennar um samskipti þeirra, en brot Trumps gegn alríkislögum fólst í tilraun hans til að dylja að greiðslurnar hefðu átt sér stað.
Með þessu taldi Juan Merchan dómari að eigin sögn einu leiðina farna til þess að fella dóm án þess að dómsniðurstaðan hindraði Trump í að taka við embætti forseta síðar í mánuðinum.
Uppfært kl. 15:53:
Sjálfur lét forsetinn verðandi þau orð falla, áður en Merchan kvað upp dóm sinn, að málaferlin gegn honum væru „kerfinu hneykslanleg“, „a disgrace to the system“: „Þeim var komið á fót til að skaða orðstír minn svo ég tapaði kosningunum, en það virkaði augljóslega ekki,“ sagði Trump.
Uppfært kl. 16:32:
Hljóðaði ákæran á hendur Trump alls upp á 34 skjalafalsbrot sem hann var fundinn sekur fyrir í maí í fyrra að viðlagðri fangelsisrefsingu miðað við lagabókstafinn og viðurkenndi Merchan dómari sjálfur að um einsdæmi væri að ræða í sögu sakadómstólsins í New York-ríki.
„Aldrei áður hefur þessi dómstóll staðið frammi fyrir svo einstökum og sérstæðum kringumstæðum,“ sagði Merchan og lét þess í framhaldinu getið, eins og fram kemur hér að ofan, að niðurstaða hans væri eina löglega leiðin til að kveða dóminn upp án þess að hindra embættistöku Trumps.
Var áheyrendasvæði réttarsalarins þétt skipað blaðamönnum og lögmönnum á meðan Trump sjálfur fylgdist með af skjá á veggnum gegnum fjarfundabúnað. Lét hann þess enn fremur getið, áður en Merchan kvað upp dóm sinn, að réttarhöldin hefðu verið skelfileg reynsla og málið allt afturför (e. setback) fyrir sakadóminn og allt dómskerfi New York-ríkis.
Joshua Steinglass saksóknari lét þau orð falla áður en dómur gekk í dag að Trump hefði verið sakfelldur fyrir úthugsaðar og ítrekaðar blekkingar. „Úrskurðurinn var einróma og endanlegur og hann ber að virða,“ sagði saksóknari.
Fjöldi vitna bar að Trump hefði með saknæmum hætti hulið greiðslur sínar til Stormy Daniels um samskipti þeirra í aðdraganda kosninganna árið 2016 sem lyktaði með sigri hans.
Gerði Trump tilraun til að fá málinu vísað frá dómi í kjölfar þess er áfrýjunardómstóll í New York hafnaði því að málinu yrði frestað. Hæstiréttur kvað þá upp þann úrskurð að málinu skyldi fram haldið.
Ákæruvaldið barðist gegn því með klóm og kjafti að dómsuppkvaðningunni í dag yrði frestað og fengu vissulega sínu framgengt. Í raun hefði minnst fjögurra ára fangelsi átt að bíða fyrsta forseta Bandaríkjanna sem tekur við embætti eftir að hafa hlotið dóm fyrir það sem í bandarísku réttarkerfi heitir „felony“ og er afbrot sem varðar meira en eins árs fangelsisrefsingu. Þess í stað bíða Trumps fjögur ár í Hvíta húsinu.
„Hann sýnir dómaranum, kviðdóminum og réttarkerfinu löngutöngina og hlær,“ segir Bennett Gershman, lagaprófessor við Pace-háskóla, við AFP-fréttastofuna og hefur líkast til lög að mæla.
Fyrir utan dómshúsið í New York héldu stuðningsmenn Trumps uppi gríðarstórum borða með nafni hans í dag sem blakti í stífri golunni á meðan Juan Merchan dæmdi verðandi forseta Bandaríkjanna sekan um stórfellt afbrot án refsingar.