Sú fullyrðing Marks Zuckerbergs, stjórnarformanns og stofnanda Meta, móðurfyrirtækis samfélagsmiðlanna Facebook og Instagram, að staðreyndakönnunarhópur miðlanna tveggja hefði beitt fyrir sig ritskoðun við efnisyfirferð sína er úr lausu lofti gripin.
Þetta er niðurstaða alþjóðlegu staðreyndakönnunarsamtakanna International Fact-Checking Network (IFCN) sem gerð var heyrumkunnug í gær með svofelldri yfirlýsingu: „Þetta er rangt og því viljum við koma á framfæri, hvort tveggja í samtímasamhengi og sögulegu.“
Frá þessu greinir fréttastofan AFP, sem er aðili að IFCN, í kjölfar þess er Zuckerberg tilkynnti nú í vikunni að hann hygðist binda endi á staðreyndakönnun efnis á Facebook og Instagram í Bandaríkjunum. Kvað hann ástæðuna vera þá að könnunin hefði haft í för með sér „of mörg mistök og of mikla ritskoðun“.
Sem fyrr segir nær ákvörðun stjórnarformannsins eingöngu til Bandaríkjanna og þess efnis sem þarlendir notendur birta á miðlunum, en IFCN kveðst telja ástæðu til að vara við áhrifum þess ef Meta tæki þá ákvörðun að leggja af staðreyndakönnun á efni miðlanna alls staðar í heiminum, í yfir eitt hundrað löndum.
„Sum þessara landa eru mjög viðkvæm fyrir falsupplýsingum sem ógnað geta pólitískum stöðugleika, haft áhrif á kosningaútkomu eða ýtt undir ofbeldisbeitingu glæpagengja, jafnvel þjóðarmorð,“ segir IFCN enn fremur og bætir því við að ef Meta hyggist leggja staðreyndakönnun sína alfarið af geti sú ákvörðun valdið raunverulegu tjóni víða um heim.
AFP-fréttastofan vinnur nú að staðreyndakönnun á 26 tungumálum á Facebook sem greiðir fyrir þjónustu 80 aðila um allan heim sem einnig nær til miðlanna Instagram og WhatsApp. Virkar þjónustan þannig að efni sem stimplað er „Rangt“ færist neðar á fréttaveitur með þeim afleiðingum að það nær augum færri notenda auk þess sem þeir, sem hyggjast deila efninu, fá upp texta sem útskýrir fyrir þeim hvers vegna efnið teljist villandi.