Austurrískri konu var rænt af mannræningjum í borginni Agadez í Níger í gærkvöldi.
Utanríkisráðuneyti Austurríkis staðfestir þetta við AFP-fréttaveituna.
Air-Info, fréttamiðill í Níger, segir að konan heiti Eva Gretzmacher. Hún sé 73 ára gömul og hafi búið í Agadez í 28 ár.
Samkvæmt upplýsingum miðilsins komu mannræningjarnir vopnaðir heim til Gretzmacher í gærkvöldi og neyddu vörð hennar til þess að opna inn til hennar.
Yfirvöld Austurríkis greindu frá því fyrr í dag að sendiráð ríkisins gagnvart Níger hefði verið upplýst um hugsanlegt mannrán, en ráðuneytið hefur nú staðfest mannránið.
Þá er sendiráðið komið í samband við samstarfslönd og sendinefnd ESB sem og svæðisyfirvöld á vettvangi.