Gífurlegur fjöldi pílagríma af hindúatrú hefur safnast saman á Indlandi til þess að baða sig í heilögu vatni á Kumbh Mela-hátíðinni. Skipuleggjendur búast við 400 milljón gestum.
Kumbh Mela-hátíðin er haldin á bökkum Ganges-fljóts og er það trú hindúa að þeir geti þvegið af sér syndir sínar með því að baða sig í vatni árinnar.
Hátíðin hefst í dag og stendur til 26. febrúar. Hún er haldin á tólf ára fresti og er búist við að hátíðin í ár verði stærsta trúarsamkoma mannkynssögunnar.
„Um 350 til 400 milljónir manna munu heimsækja hátíðina, þannig að þú getur ímyndað þér umfang undirbúningsins,“ segir Vivek Chaturvedi, talsmaður hátíðarinnar, fyrir opnunina.
Um 150.000 salerni hafa verið smíðuð fyrir hátíðina og fjöldi samfélagseldhúsa þar sem 50.000 manns geta borðað í senn.