Stjórnmálamenn fá ekki að halda ræður á minningaratburði í Auschwitz, 80 árum frá frelsun þeirra sem þar var haldið af nasistum í seinni heimsstyrjöldinni.
Þetta kemur fram í frétt The Guardian en stjórnendur safnsins segjast vilja einblína á þá fáu eftirlifendur sem eftir eru og veita þeim sviðið alfarið.
Fjöldi þjóðarleiðtoga verða viðstaddir athöfnina sem fer fram 27. janúar en búist er við því að minningarathöfnin verði ein sú síðasta þar sem eftirlifendur búðanna eru enn á lífi eða nógu heilsuhraustir til að ferðast til að taka þátt.
„Við viljum einblína á síðustu eftirlifendurna sem eru enn okkar á meðal, á sögu þeirra, sársauka og áföll og hlýða á þeirra sýn á okkar erfiðu siðferðislegu skyldur í dag,“ segir Piotr Cywinski, forstöðumaður Auschwitz-Birkenau-minnisvarðans.
Áhyggjur eru engu að síður uppi um að samtímastjórnmál kunni að skyggja á minningarathöfnina, en áframhaldandi árásir Ísraela á Gasasvæðið og stríðið í Rússlandi og Úkraínu eru meðal þeirra atburða sem gætu valdið flækju á minningarstundinni um þá 1,1 milljón manns sem voru myrtir í búðunum, en þar af voru 85% gyðingar.
Utanríkisráðherra Póllands sagði fyrr í mánuðinum að hann teldi pólsk yfirvöld ekki eiga annarra kosta völ en að handtaka Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, yrði hann viðstaddur athöfnina.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) í Haag gaf út handtökuskipun á hendur Netanjahú í nóvember síðastliðnum og sakaði hann um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.
Forsætisráðherra landsins, Donald Tusk, dró þó fullyrðingu utanríkisráðherrans til baka og sagði alla ísraelska stjórnmálamenn, þar á meðal Netanjahú, geta verið viðstadda athöfnina án þess að eiga á hættu að vera handteknir, þrátt fyrir að Pólland sé aðildarland að Alþjóðlega sakamáladómstólnum.
„Pólska ríkisstjórnin álítur örugga þátttöku leiðtoga Ísraels í minningarhátíðinni 27. janúar 2025, sem hluta af því að heiðra gyðingaþjóðina, í ljósi þess að milljónir dætra hennar og sona féllu fyrir hendi Þriðja ríkisins í helförinni,“ sagði í tilkynningu forsætisráðuneytis Tusk.
Cywinski kveðst ekki hafa vitað til þess að Netanjahú hefði nokkurn tímann ætlað sér að vera viðstaddur athöfnina í ár en að stór sendinefnd frá Ísrael verði viðstödd. Öll umræða um annað væri tilbúningur af hálfu fjölmiðla.
Hann staðfesti að rússneskum stjórnmálamönnum hefði ekki verið boðið að sinni þrátt fyrir að það hafi verið Sovétmenn sem frelsuðu búðirnar árið 1945.
Cywinski segir bæði Rússa og Úkraínumenn hafa verið meðal frelsaranna en að ekki sé viðeigandi að bjóða þeim sem ekki virði gildi frelsisins.
Hann vísaði á bug öllum samanburði á innrás Rússa í Úkraínu og árásum Ísraela á Gasasvæðið.
„Ég reyni að fara ekki með pólitík inn í Auschwitz og bið stjórnmálamenn um að fara ekki inn í Auschwitz með pólitík. En staðan er auðvitað allt önnur,“ sagði Cywinski.
Sagði hann stríðið í Úkraínu dæmi um ríki sem ræðst á sjálfstætt og saklaust ríki en að árás Ísraelsmanna á Gasasvæðið, þótt hörmuleg sé, væri ríki að reyna að verjast hryðjuverkaárásum.