Forseti alþjóðadómstólsins nýr forsætisráðherra

Nawaf Salam, nýr forsætisráðherra Líbanon.
Nawaf Salam, nýr forsætisráðherra Líbanon. AFP

Forseti Líbanon, Joseph Aoun, hefur skipað Nawaf Salam, forseta alþjóðadómstólsins í Haag, sem forsætisráðherra landsins eftir að meirihluti þingmanna líbanska þingsins tilnefndi hann í dag. 

Valið er sagt vera mikið áfall fyrir skæruliðasamtökin Hisbollah og er það talið undirstrika valdaójafnvægi sem hefur myndast á milli valdastofna í Líbanon eftir að Hisbollah fóru í stríð við Ísrael í fyrra.

Eins og fyrr segir nýtur Salam stuðnings meirihluta þingmanna líbanska þingsins eða 84 af 128 þingmönnum sem vilja ríkisstjórn undir hans stjórn.

Stuðningsmenn Salam koma meðal annars úr röðum kristinna, drúsa og súnnímúslíma.

Liðsmenn Hisbollah og Amal mótfallnir Salam

Liðsmenn Hisbollah og Amal-hreyfingarinnar sem eiga sæti á líbanska þinginu tilnefndu engan sem forsætisráðherra landsins en segjast ekki ætla taka þátt í ríkisstjórn undir stjórn Salams. 

Samkvæmt sértrúarkerfi Líbanons verður forsætisráðherra landsins að koma úr röðum súnnímúslíma. Forsetinn skal vera skipaður af maróníta og forseti þingsins verður að vera sjítamúslími. 

Salam hefur verið skipaður forseti alþjóðadómstólsins frá árinu 2018. Hann átti því tvö ár eftir af skipunartíma sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert