Skemmtiferðaskipið Viking Vela frá bresku útgerðinni Viking Cruises er í vanda statt úti fyrir Ålesund við vesturströnd Noregs. Skipið er vélarvana að hluta og óskar áhöfnin leyfis til að koma til hafnar þar í bænum, eftir því sem Edvard Middelthon, varðstjóri hjá Björgunarmiðstöð Suðurlands, Hovedredningssentralen Sør, greinir norska dagblaðinu VG frá.
Engin hætta er sögð á ferðum en Viking Vela, sem er glænýtt, hleypt af stokkunum í fyrra, hefur rými fyrir 998 farþega og 465 manna áhöfn.
Mjög hvasst er á svæðinu og víðar um Noreg raunar, en veðurstofan Meteorologisk Institutt hefur gefið út allan litaskalann af viðvörunum fyrir daginn í dag og næstu daga vegna ofsaveðurs, asahláku, snjó- og vatnsflóðahættu og glerhálku á vegum í kjölfar mikillar hlýnunar, en snjó hefur kyngt niður um allan Noreg fyrstu daga ársins – eins og á sama tíma í fyrra þegar samgöngur um alla Skandinavíu gengu úr skaftinu – og er nú gert ráð fyrir ískyggilegum akstursskilyrðum víða er hlýna tekur.
Athygli vekur að annað skip frá Viking Cruises, Viking Sky, lenti í því svo um munaði úti fyrir Hustadvika í Mæri og Raumsdal í mars 2019 og var þá raunveruleg hætta á ferðum. Var heljarmikil björgunaraðgerð sett í gang til að koma 1.300 farþegum skipsins í land við tvísýnar aðstæður í aftakaveðri.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Noregi komst að þeirri niðurstöðu í kjölfar ítarlegrar rannsóknar og skýrslugerðar að ástandi Viking Sky hefði verið svo ábótavant að skipið hefði aldrei átt að fá leyfi til að leggja í haf með á annað þúsund farþega innanborðs.