Norsku konungshjónin verða bæði með gangráð frá fimmtudegi

Norsku konungshjónin Haraldur og Sonja verða bæði komin með gangráð …
Norsku konungshjónin Haraldur og Sonja verða bæði komin með gangráð fyrir helgi, konungur fékk sinn í mars í fyrra í kjölfar alvarlegra veikinda sem hófust í Malasíu, en drottning fær gangráð á fimmtudaginn eftir að hafa fengið gáttatif um helgina. AFP/Terje Pedersen

Í Sonju Noregsdrottningu verður senn græddur hjartagangráður í kjölfar gáttatifs sem hún fékk í skíðaferð til Lillehammar um helgina. Var drottning lögð inn á sjúkrahús um helgina og útskrifuð heim eftir ítarlega skoðun. Haraldur konungur fékk gangráð í aðgerð í mars í fyrra.

Á fimmtudaginn gengst hún undir skurðaðgerð á Ríkissjúkrahúsinu í Ósló þar sem varanlegum gangráði verður komið fyrir í brjóstholi hennar og mun drottning, sem er 87 ára gömul, liggja á sjúkrahúsinu í einn til tvo daga á eftir á meðan hún jafnar sig. Haraldur er einnig 87 ára, fæddur 21. febrúar 1937, og hafa hjónin þar með fengið gangráð á sama aldursári sínu.

Einföld aðgerð og hættulítil

„Ástandið er ekki talið alvarlegt og drottning er við góða heilsu eftir atvikum,“ sagði í fréttatilkynningu frá norsku konungshöllinni eftir innlögn drottningar á laugardaginn.

Ole Christian Mjølstad, yfirlæknir við St. Olavs-sjúkrahúsið í Þrándheimi, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að gangráður sé ekki algeng ráðstöfun í kjölfar gáttatifs (e. atrial fibrillation).

„Gáttatif er hjartsláttartruflun sem í sumum tilfellum tengist lágri hjartsláttartíðni, ýmist vegna hjartaáfalls eða í kjölfar þess. Í slíkum tilfellum getur gangráður reynst nauðsynlegur til að koma reglu á hjartsláttartíðnina,“ segir Mjølstad og bætir því við að aðgerðin sé einföld og henni fylgi takmörkuð áhætta.

Ástand Haraldar konungs var hins vegar alvarlegt þegar hann veiktist hastarlega í Malasíu í febrúar í fyrra og var þar lagður inn á sjúkrahús sem hann lofaði í hástert. Norski herinn tók að sér að flytja konung heim þar sem hann gekkst undir aðgerð í mars og fékk sinn gangráð.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert