Lífvörður við konungshöllina í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi slasaðist lífshættulega við vaktaskipti á laugardaginn er hann hrasaði og féll í kjölfarið á byssusting eigin riffils með þeim afleiðingum að stingurinn gekk inn í höfuð hans bak við hægra eyra.
Ástand varðarins er nú stöðugt þar sem hann liggur á sjúkrahúsi, er hann við meðvitund og má mæla, en Johan Mattsson majór segir í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að fumlaus fyrstu viðbrögð annarra lífvarða á vettvangi hafi verið aðdáunarverð.
Í kjölfar slyssins var öllum lífvörðum konungshjónanna sænsku gert að fjarlægja byssustingina af vopnum sínum á meðan farið verður yfir verklag og lögregla rannsakar hvort lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafi verið brotin í aðdraganda slyssins á laugardaginn.