Rukka 17 þúsund krónur fyrir ananaspítsu

Eigendur og bakarar veitingastaðarins Lupa Pizza hafa með semingi bætt …
Eigendur og bakarar veitingastaðarins Lupa Pizza hafa með semingi bætt ananas- og skinkubökunni á matseðil sinn vegna mikillar eftirspurnar.

Eigendur pítsastaðar í Norwich í Bretlandi hafa fengið sig fullsadda af lyst gesta á svokallaðri Havaí-pítsu og hafa brugðið á það ráð að láta fólk greiða fúlgur fjár fyrir áleggið.

Eigendur og bakarar veitingastaðarins Lupa Pizza hafa með semingi bætt ananas- og skinkubökunni á matseðil sinn vegna mikillar eftirspurnar.

Kveðast þeir engan veginn skilja hvers vegna íbúar Norwich séu áfjáðir í svo ógeðfellt álegg, en að bakan sé föl á heil 100 pund, eða um 17 þúsund íslenskar krónur.

Vitnað í Guðna forseta

Í frétt Guardian kemur fram að víða hafi verið deilt um hvort ananas ætti heima á pítsu, raunar svo víða að árið 2017 hafi forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sagst helst vilja banna ananas á pítsur.

Eins og Íslendingum er kunnugt hafi málið vakið mikla athygli og Guðni þurft að útskýra að þrátt fyrir að honum þætti ananas á pítsu ekki góður, þá gæti hann ekki bannað áleggið með lögum.

Samkvæmt breskri skoðanakönnun um Havaí-pítsuna árið 2017 kom í ljós að þrátt fyrir að 84% Breta segðust þykja pítsa góð og 82% segðust þykja ananas góður, voru aðeins 53% hrifin af ananas sem áleggi á pítsu.

Ananas á pítsu? Aldrei

Á matseðli Lupa Pizza stendur: „Já, fyrir 100 pund geturðu fengið það. Pantaðu kampavín líka! Gerðu vel við þig, skrímslið þitt!“

„Ég hata ananas á pítsu,“ segir eigandi staðarins, Francis Woolf.

Yfirkokkurinn Quin Jianoran kveðst hjartanlega sammála og segist fyrr myndu setja jarðarber á pítsu en ávöxtinn gula.

„Mér finnst Pina Colada alveg gott, en ananas. Á pítsu? Aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert