Verður ekki viðstödd innsetningarathöfn Trumps

Michelle mætir ekki en eiginmaður hennar, Barack Obama, ætlar að …
Michelle mætir ekki en eiginmaður hennar, Barack Obama, ætlar að mæta. AFP/Getty Images/Brandon Bell

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, verður ekki viðstödd innsetningarathöfn Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, í Washington D.C. 20. janúar.

Þetta segir í tilkynningu frá skrifstofu hennar og Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, en ekki eru tilgreindar ástæður fyrir fjarveru hennar.

Hún var heldur ekki viðstödd útför Jimmy Carters í síðustu viku.

CNN greinir frá.

Barack Obama mætir

„Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur staðfest komu sína á 60. innsetningarathöfnina. Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, verður ekki viðstödd innsetningarathöfnina,“ segir í tilkynningunni.

Þetta er óhefðbundið þar sem fyrrverandi forsetahjón mæta nær alltaf saman á athöfnina.

Donald Trump og eiginkona hans, Melania Trump, voru þó ekki viðstödd embættistöku Joe Bidens árið 2021.

Obama-hjónin á landsfundi demókrata á síðasta ári.
Obama-hjónin á landsfundi demókrata á síðasta ári. AFP/Getty Images/Andrew Harnik

Talað opinskátt um andúð sína á Trump

Michelle Obama hefur talað opinskátt um andúð sína á Trump, en hún hefur sakað Trump um að stofna öryggi Obama-fjölskyldunnar í hættu með orðræðu sinni.

Árið 2017 setti hún þessar persónulegu tilfinningar til hliðar eftir að Trump vann kosningarnar og bauð þá Trump-hjónunum í Hvíta húsið til að fá sér te fyrir fyrstu innsetningarathöfn Trumps.

Nokkrum árum seinna sagði hún í viðtali að hún hafi tárast við embættistöku Trumps árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert