Eldgos hófst í morgun í fjallinu Ibu í austurhluta Indónesíu í fimmta sinn á þessu ári og hefur þúsundum íbúa verið gert að yfirgefa heimili sín.
Ibu er staðsett á afskekktu eyjunni Halmahera og er eitt virkasta eldfjall Indónesíu. Eldfjallið spúði háum súlum reyks og ösku út í andrúmsloftið og hefur jarðfræðistofnun landsins sett svæðið nálægt fjallinu á hæsta viðvörunarstig. Öskuskýið náði fjóra kílómetra upp í himininn.
Íbúum í þorpunum nálægt fjallinu og ferðamönnum hefur verið ráðlagt að halda sig í 5-6 kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum og bera grímu vegna mikils öskufalls.