Innviðir Eystrasalts verulegt áhyggjuefni

Mark Rutte NATO-framkvæmdastjóri á ráðstefnunni í Helsinki í gær. Hann …
Mark Rutte NATO-framkvæmdastjóri á ráðstefnunni í Helsinki í gær. Hann telur fulla ástæðu til að vera með böggum hildar yfir gangi mála á Eystrasalti. AFP/Antti Aimo-Koivisto

Ástæða er til að hafa „verulegar áhyggjur“ af gangi mála í Eystrasalti þar sem grunur leikur á að Rússar hafi framið ítrekuð skemmdarverk á neðansjávarinnviðum allt frá því haustið 2022. Er þetta niðurstaða fundar NATO-stjórnenda og -fulltrúa Eystrasaltslandanna þriggja auk Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar, Þýskalands og Póllands eftir fund þeirra í finnsku höfuðborginni Helsinki í gær.

Hefur norska ríkisútvarpið NRK ummælin eftir Mark Rutte framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins eftir síðasta áfallið sem var rof eins rafmagnsstrengs og fjögurra ljósleiðarastrengja á botni Finnska flóa milli Finnlands og Eistlands. Er áhöfn rússneska skuggaflotaskipsins Eagle S, sem er olíutankskip skráð á Cook-eyjum, grunuð um verkið.

Sérhverri atlögu svarað

Leggur framkvæmdastjórinn ríka áherslu á mikilvægi þess að verja neðansjávarinnviði NATO-ríkjanna. Tekur hann fram að rannsókn málanna standi enn yfir, en ekki dragi það úr ástæðunni til að gjalda varhug við því sem átt hefur sér stað.

„Sérhverri atlögu að innviðum okkar verður svarað með hnitmiðuðum og endanlegum aðgerðum,“ rita fulltrúar ríkjanna á Helsinki-fundinum í sameiginlegri yfirlýsingu sinni, en áður en fundurinn hófst hafði Olaf Scholz Þýskalandskanslari heitið því að Þýskaland gerði allt sem í þess valdi stæði til að setja rússneska skuggaflotanum stólinn fyrir dyrnar hvað skemmdarverk hans snerti.

Lét hann þess enn fremur getið að stjórnvöld hans íhuguðu sérstakar viðskiptaþvinganir gegn skipum skuggaflotans, með stoð í þeim þvingunum er Rússar sæta nú þegar eftir innrás þeirra í Úkraínu. „Ná þær til einstakra skipa og útgerða,“ hafði Reuters-fréttastofan eftir Scholz í gær.

NRK

YLE

Reuters

Umfjöllun á síðu NATO

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert