Lausn verði að fylgja vopnahléi

Emmanuel Macron leggur áherslu á að vopnahléinu verði að fylgja …
Emmanuel Macron leggur áherslu á að vopnahléinu verði að fylgja lausn. AFP/Toby Melville

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að lausn verði að fylgja samkomulagi um vopnahlé milli Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna.

Greint var frá því í kvöld að samningar hefðu náðst um tímabundið vopnahlé milli deiluaðilanna og að Hamas myndi leysa 30 gísla úr haldi.

„Samkomulagið verður að virða. Leysa verður gíslana úr haldi. Hjálp verður að berast til íbúa á Gasa. Stjórnmálalausn verður að verða að raunveruleika,“ skrifaði Frakklandsforseti á samfélagsmiðla.

Leiði af sér langvarandi frið

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tjáði sig einnig um samkomulagið í kvöld. Sagðist hann vonast til þess að vopnahléið leiddi af sér frið á Gasa.

„Við vonum að samkomulagið muni hagnast svæðinu sem heild og mannkyni öllu, sérstaklega fyrir bræður okkar í Palestínu og að hann muni leiða af sér langvarandi frið og stöðugleika,“ skrifaði Erdogan á samfélagsmiðla.

Biden bjartsýnn

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ræddi um samningana í ræðu frá Hvíta húsinu í kvöld þar sem hann sagðist hafa unnið að vopnahléinu undanfarna daga ásamt Donald Trump, sem tekur við keflinu af honum í embætti næsta mánudag. 

Fyrsti áfangi samn­ings­ins var­ir í sex vik­ur og fel­ur í sér „full­komið og al­gert vopna­hlé, brott­flutn­ing herafla Ísra­els­manna frá öll­um þétt­býl­um svæðum á Gasa og lausn fjölda gísla í haldi Ham­as,“ sagði Biden.

Ekki er búið að klára að semja um ann­an áfanga vopna­hlés­ins sem á að taka við að sex vik­um liðnum.

Biden kvaðst þó vera sann­færður um að samn­ing­ur­inn myndi halda og að samið yrði um stríðslok í öðrum áfanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert