Verðbréfaeftirlitið höfðar mál gegn Musk

Trump mun skipa nýjan forstjóra hjá verðbréfaeftirlitinu þegar hann tekur …
Trump mun skipa nýjan forstjóra hjá verðbréfaeftirlitinu þegar hann tekur við og er óljóst hvort að sá forstjóri muni halda kærunni til streitu. AFP/Getty Images/Anna Moneymaker

Verðbréfaeftirlitið í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn Elon Musk vegna kaupa hans á hlutabréfum í Twitter í mars árið 2022. Segja þeir að hann hafi með ólögmætum hætti ekki upplýst um það að hann ætti stóran hlut í fyrirtækinu til þess að geta keypt fleiri hlutabréf á lægra verði.

Áður en Elon Musk keypti Twitter fyrir 44 milljarða dollara í október 2022 byrjaði hann fyrst á því að kaupa hlutabréf í Twitter snemma árs á meðan fyrirtækið var skráð á markað.

Samkvæmt reglum verðbréfaeftirlitsins þá ber fjárfestum að upplýsa um það þegar þeir hafa eignast yfir 5% hlut í fyrirtækjum innan við 10 dögum eftir kaupin. Hann átti að upplýsa um kaupin 24. mars 2022 en gerði það ekki fyrr en 4. apríl.

Sagður hafa sparað sér 21 milljarð króna

Daginn eftir að hann tilkynnti um eignarhlut sinn í Twitter, sem nam á þeim tíma um 9%, rauk verð bréfa í Twitter upp um 27 prósent.

Því segir verðbréfaeftirlitið ljóst að þeir sem seldu Musk bréf á milli 24. mars og 4. apríl hefðu getað selt þau talsvert dýrar ef rétt hefði verið staðið að tilkynningunni.

Í stefnunni er fullyrt að Musk hafi sparað sér um 150 milljónir dollara, rúmlega 21 milljarð króna, við kaupin sem hann gerði á því tímabili þar sem markaðurinn vissi ekki að hann væri að stækka eignarhlutinn sinn – en hefði vitað ef Musk hefði upplýst á réttum tíma.

Lokaafurð margra ára áreitis gegn Musk

Alex Spiro, lögmaður Musks, sagði stefnuna vera til skammar og lokaafurð „margra ára áreitis“ gegn Musk.

„Aðgerðirnar í dag [gær] eru viðurkenning SEC [verðbréfaeftirlitsins] á því að þeir geti ekki höfðað raunverulegt mál,“ sagði hann í tölvupósti til AFP fréttastofunnar.

Það er óljóst hvort að verðbréfaeftirlitið dragi málið til baka þegar nýr forstjóri, skipaður af Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta, tekur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert