Ný forsetamynd af Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, hefur vakið talsverða athygli. Myndin var birt í dag og á henni virðist hann setja upp álíka svip og hann gerði þegar tekin var af honum sakborningsmynd í Fulton-fangelsinu í ágúst 2023.
Svokallað aðlögunarteymi, sem sér um embættistöku Trumps, birti myndina af honum ásamt varaforsetamynd af J.D. Vance, verðandi varaforseta Bandaríkjanna.
Báðar ljósmyndirnar sýna repúblikanana í bláum jakkafötum, hvítum skyrtum og með blá bindi. Trump er einnig með bandaríska fánanælu í jakkanum.
Ljósmyndin af Trump minnir á sakborningsmyndina sem tekin var af honum í Fulton-fangelsinu í tengslum við ákæru gegn honum um að hann hafi reynt að snúa við niðurstöðum forsetakosninganna árið 2020.
Daniel Torok, yfirljósmyndari Trumps, birti myndirnar á samfélagsmiðlum í gær en Trump tekur við embætti forseta á mánudag.
Forsetamyndin af Trump er talsvert öðruvísi en myndirnar sem hann notaði síðast þegar hann var forseti frá 2017 til 2021, eins og sjá má á eftirfarandi mynd.