Lögreglan í Skotlandi rannsakar nú dularfullt hvarf tveggja ungverskra systra sem hurfu sporlaust í landinu fyrir níu dögum.
Systurnar, Eliza og Henrietta Huszti, eru 32 ára gamlar og sáust síðast á gangi í borginni Aberdeen við ána Dee klukkan tvö að morgni þann 7. janúar samkvæmt eftirlitsmyndavélum.
Síðan þá hefur ekki sést til systranna þrátt fyrir umfangsmikla leit lögreglunnar en lögreglan hefur þó útilokað að hvarf þeirra hafi verið með saknæmum hætti.
Systurnar hafa búið í Skotlandi í 10 ár og eru hluti af þríburasystrum en þriðja systirin, Edit, býr enn í Ungverjalandi. Var það einmitt fjölskylda systranna í Ungverjalandi sem gerði lögreglu viðvart um hvarf þeirra og hafa myndir af þeim birst víða í breskum og ungverskum fjölmiðlum.
Að sögn David Howieson, lögreglustjóra í Aberdeen, er ein kenning lögreglunnar sú að systurnar hafi farið í ána sem þær sáust síðast ganga fram hjá. Beinist því leit lögreglunnar mikið að ánni og höfn sem þar er nálægt.
Sagði hann að lögreglan hefði ekki fundið neinar vísbendingar um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað en bætti við að hegðun systranna þann dag sem þær hurfu hafi verið einkennileg og úr karakter.
Bróðir systranna, Jozsef, sagði fjölskylduna hafa verið í sambandi við þær um áramótin og hafi þær þá virst hamingjusamar og glaðar.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið á þriðjudag greindi hann hins vegar frá að hann hafi verið hissa að heyra að þær hefðu tilkynnt leigusala sínum að þær væru að flytja út, en það var eitthvað sem þær höfðu ekki minnst á við fjölskyldu sína. Þá voru systurnar einnig að safna sér fyrir eigin íbúð.
Howieson segir lögregluna nálgast rannsóknina með opnum huga og útilokar ekki að systurnar hafi getað yfirgefið svæðið án þess að sjást.