Norska öryggislögreglan PST rannsakar nú innbrot og skemmdarverk í sendiráði Venesúela á Frogner í Ósló sem starfsfólk sendiráðsins tilkynnti lögreglu um á miðvikudaginn.
Tekur PST þar með við rannsókn sem lögreglan í Ósló hóf og varðar brot á 184. grein norsku hegningarlaganna sem fjallar um brot gegn sendierindrekum erlendra ríkja á norsku yfirráðasvæði. Um þetta upplýsir Line Nyvoll ákæruvaldsfulltrúi PST norska ríkisútvarpið NRK í morgun.
Krafðist venesúelski utanríkisráðherrann Yván Gil þess í gær að norsk yfirvöld fyndu þann eða þá sem stóðu að innbrotinu og skellti skuldinni á andstæðinga Nicolás Maduros forseta sem fyrir viku sór eið við upphaf síns þriðja kjörtímabils í kjölfar umdeildra kosninga sem grunur leikur á að hafi ekki farið eftir réttum leikreglum lýðræðisins.
„Í dag réðust fasísk öfl inn í sendiráð okkar í Ósló í Noregi og unnu þar spjöll sem sýna svo ekki verður um villst hverjum þau þjóna,“ sagði ráðherra í yfirlýsingu í fyrradag.
NRK-II (fyrsta frétt af innbrotinu)