Hæstiréttur staðfestir TikTok-bann

AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest lög sem banna samfélagsmiðilinn TikTok í Bandaríkjunum. 

Þetta þýðir að frá og með 19. janúar verði um 170 milljón notendum í Bandaríkjunum að öllum líkindum meinaður aðgangur að forritinu. 

Hæstiréttur segir að ný löggjöf bandarískra stjórnvalda brjóti ekki í bága við tjáningarfrelsið og að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi sýnt fram á raunverulega ógn gegn þjóðaröryggi gagnvart kínversku fyrirtæki sem á miðilinn. 

Þetta er mikið högg fyrir eigendur TikTok sem áfrýjuðu málinu til hæstaréttar í lok síðasta árs. En markmiðið var að stöðva framgang laga sem skylda kínverskt móðurfélag fyrirtækisins, ByteDance, að losa sig við TikTok-appið fyrir 19. janúar ellegar sæta banni í Bandaríkjunum.

Lögin voru sett í apríl í fyrra undir því yfirskini að gagnaaðgangur kínverska móðurfélagsins um bandaríska notendur þyki ógna þjóðaröryggi landsins.

Áður höfðu dómstólar vísað á bug þeim röksemdum TikTok að lagasetningin bryti m.a. gegn málfrelsi og gerir miðillinn kröfu um að Hæstiréttur fresti banninu á meðan áfrýjunin er til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert