Kennari við Runby-grunnskólann í Väsby í Uppland, norðan sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms, er alvarlega særður eftir hnífstungu óþekkts manns á skólalóðinni um hádegisbil í fyrradag.
„Þetta er rólegheitaskóli svo þessi atburður er okkur mikið áfall,“ segir Axel Homann, nemandi við skólann í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT, en ástand konunnar sem stungin var er nú stöðugt eftir að hún var flutt með þyrlu á sjúkrahús í kjölfar atburðarins. Þetta staðfestir lögreglan á staðnum við SVT.
Hefur sænska dagblaðið Expressen rætt við fórnarlamb árásarinnar og segist því svo frá, að maður með hníf í hendi hafi nálgast einn nemenda skólans á bílastæðinu. Hafi hún þá hlaupið til og skipað nemandanum að koma sér undan. Hafi maðurinn þá stungið hana í kviðinn og því næst haft veski hennar á brott með sér.
Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins þótt kennarinn hafi getað lýst árásarmanninum fyrir lögreglu sem rannsakar málið sem tilraun til manndráps.