Stjörnuskipið hvarf

Stjörnsuskipinu var skotið upp í Texas.
Stjörnsuskipinu var skotið upp í Texas. AFP/SpaceX

Starship, kröftugasta geimflaug jarðar, hvarf í tilraunaskoti SpaceX fyrir skömmu. Geimfarið annaðhvort sprakk eða eyðilagði sig sjálfkrafa vegna tæknilegra vandræða. Enn er margt óljóst um afdrif þess. Eldflaugakerfið skilaði sér þó til baka og hefur það aðeins gerst einu sinni áður, en um er að ræða sjöunda tilraunaskot Stjörnuskipsins.

SpaceX lýsti afdrifunum á mjög óljósan hátt og sagði að geimfarið hefði orðið fyrir „óvæntu niðurbroti.“

CNN segir að SpaceX noti þetta hugtak þegar geimfar hjá þeim springur eða það eyðir sér sjálft. 

Ekki er ljóst hvernig, hvenær eða hvers vegna geimfarið sprakk. Í því er öryggisventill sem er hannað til að sprengja geimfarið í minni einingar ef það fer út af sporinu. Það er til þess að stórir hlutir geimfarsins ógni ekki fólki eða eignum.

„Við getum staðfest að við glötuðum skipinu,“ segir Kate Tice, verkfræðingur hjá SpaceX. 

Annar hluti Stjörnuskipsins skilaði sér

Geim­flaug­in er í tveim­ur hlut­um en neðri hlutinn heitir „Super Heavy Booster“ og er einskonar eldflaugakerfi til þess að skjóta geimfarinu á loft. Það skilaði sér aftur á lendingarpallinn og er þetta í annað skipti sem það tekst. 

„Með tilraun sem þessari er árangurinn fólginn í því sem við lærum og flugið í dag mun hjálpa okkur að auka áreiðanleika Starship,“ segir í tilkynningu Starship.

Stars­hip er mik­il­væg­ur hluti af áætl­un Geim­ferðastofn­un­ar Banda­ríkj­anna, NASA, um að senda geim­fara á tunglið síðar á þess­um ára­tug. Einnig hygg­ur Elon Musk, for­stjóri SpaceX, á opn­un ný­lendu á plán­et­unni Mars í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert