Stjörnuskipið hvarf

Stjörnsuskipinu var skotið upp í Texas.
Stjörnsuskipinu var skotið upp í Texas. AFP/SpaceX

Stars­hip, kröft­ug­asta geim­flaug jarðar, hvarf í til­rauna­skoti SpaceX fyr­ir skömmu. Geim­farið annaðhvort sprakk eða eyðilagði sig sjálf­krafa vegna tækni­legra vand­ræða. Enn er margt óljóst um af­drif þess. Eld­flauga­kerfið skilaði sér þó til baka og hef­ur það aðeins gerst einu sinni áður, en um er að ræða sjö­unda til­rauna­skot Stjörnu­skips­ins.

SpaceX lýsti af­drif­un­um á mjög óljós­an hátt og sagði að geim­farið hefði orðið fyr­ir „óvæntu niður­broti.“

CNN seg­ir að SpaceX noti þetta hug­tak þegar geim­far hjá þeim spring­ur eða það eyðir sér sjálft. 

Ekki er ljóst hvernig, hvenær eða hvers vegna geim­farið sprakk. Í því er ör­ygg­is­ventill sem er hannað til að sprengja geim­farið í minni ein­ing­ar ef það fer út af spor­inu. Það er til þess að stór­ir hlut­ir geim­fars­ins ógni ekki fólki eða eign­um.

„Við get­um staðfest að við glötuðum skip­inu,“ seg­ir Kate Tice, verk­fræðing­ur hjá SpaceX. 

Ann­ar hluti Stjörnu­skips­ins skilaði sér

Geim­flaug­in er í tveim­ur hlut­um en neðri hlut­inn heit­ir „Super Hea­vy Booster“ og er einskon­ar eld­flauga­kerfi til þess að skjóta geim­far­inu á loft. Það skilaði sér aft­ur á lend­ingar­pall­inn og er þetta í annað skipti sem það tekst. 

„Með til­raun sem þess­ari er ár­ang­ur­inn fólg­inn í því sem við lær­um og flugið í dag mun hjálpa okk­ur að auka áreiðan­leika Stars­hip,“ seg­ir í til­kynn­ingu Stars­hip.

Stars­hip er mik­il­væg­ur hluti af áætl­un Geim­ferðastofn­un­ar Banda­ríkj­anna, NASA, um að senda geim­fara á tunglið síðar á þess­um ára­tug. Einnig hygg­ur Elon Musk, for­stjóri SpaceX, á opn­un ný­lendu á plán­et­unni Mars í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert