Egyptar segja að Ísraelar ætli að sleppa 1.890 palestínskum föngum í skiptum fyrir 33 ísraelska gísla í fyrsta áfanga vopnahlés á Gasa.
Utanríkisráðuneyti Egyptalands segir að fangarnir verði látnir lausir í fyrsta áfanga vopnahlésins sem á að hefjast í fyrramálið.
Katar, sem hafði milligöngu um samninginn ásamt Egyptum og Bandaríkjunum, hafði tilkynnt að 33 gíslar yrðu látnir lausir af vígamönnum á Gasa í fyrsta áfanga.
Dómsmálaráðuneyti Ísraels hafði áður sagt að 737 palestínskir fangar yrðu látnir lausir. Af þeim 251 sem var tekinn í gíslingu í árás Hamas á Ísrael 7. október 2023 sem markaði upphaf stríðsins, eru 94 enn á Gasa, þar af 34 sem Ísraelsher segir að séu látnir.