Létust vera fjórtán ára

Mynd af liðsmönnum sænsku Shottaz-klíkunnar sem tekin var á útsýnispalli …
Mynd af liðsmönnum sænsku Shottaz-klíkunnar sem tekin var á útsýnispalli Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló í fyrra. Norska lögreglan telur að Shottaz reyni að ná fótfestu í Ósló og nýleg tilraun til að ráða barnungan „klivare“, eða leigumorðingja, til að ráða höfuðpaur í undirheimum Óslóar af dögunum náði til hátt settra manna í Rinkeby í Svíþjóð þar sem Shottaz hefur töglin og hagldirnar. Skjáskot/NRK

Fimm manns, fjórir Norðmenn og einn Dani, sitja í gæsluvarðhaldi í Noregi í kjölfar þess er sænskir lögreglumenn sigldu undir fölsku flaggi á dulkóðaða samskiptamiðlinum Signal og létust þar vera fjórtán ára gamall drengur sem norskir undirheimamenn höfðu pantað sem leigumorðingja frá Svíþjóð til höfuðs hátt settum klíkuforingja í Ósló.

Höfðu Norðmennirnir leitað til Shottaz-klíkunnar sem heldur að mestu til í úthverfinu Rinkeby í Vestur-Stokkhólmi. Hefur klíkan átt í blóðugum átökum síðan klofningur varð innan hennar árið 2015 sem kostað hafa minnst tíu mannslíf.

Stóraðgerð í Tensta

Telur norska lögreglan að Shottaz hafi um árabil reynt að ná fótfestu í undirheimum Óslóar og hafa félagar klíkunnar sumir hverjir verið gerðir brottrækur frá Noregi með dómi í kjölfar afbrota þar í landi.

Í maílok í fyrra handtók sænska lögreglan alls fimmtán manns í stóraðgerð í Tensta í Stokkhólmi eins og sænskir fjölmiðlar greindu frá. Skömmu síðar kom sænskur maður til Óslóar sem lögregla handtók nokkrum vikum síðar. Leiddi handtaka hans lögregluna að hótelherbergi í Ósló þar sem tveir ungir menn hittust fyrir með fulla ferðatösku af peningum, skotvopn og skotfæri.

Þarna byrjuðu hjólin að snúast í því máli sem hér segir af.

Er líða tók á rannsókn málsins og stykkin tóku að falla á sína staði í púsluspilinu kom í ljós að um var að ræða aðgerð sem snerist um að ráða fyrrgreindan höfuðpaur í Ósló af dögum. Norskir fjandmenn hans komust í samband við sænskan mann sem þeir höfðu samband við á Signal. Sá kvaðst í stakk búinn til að útvega aðila sem í sænskum undirheimum kallast „klivare“, eða klifrari, og er slangur yfir leigumorðingja.

Félagar í Shottaz ræða tilboðið frá Norðmönnum sín á milli …
Félagar í Shottaz ræða tilboðið frá Norðmönnum sín á milli á Signal. „Jappish“ er slangur yfir manndráp og „para“ táknar peninga. Skjáskot/Sænska lögreglan

Vissu af aldri drengsins

Í þessu tilfelli var um fjórtán ára gamlan dreng að ræða og þykir sannað að Norðmönnunum, sem föluðust eftir „klifraranum“, var kunnugt um aldur hans.

Sænskir lögreglumenn höfðu mitt í „ráðningarferlinu“ komist á snoðir um hvað til stæði og auðnaðist að koma sér inn á Signal og setja sig í samband við mennina Noregsmegin. Villtu þeir á sér heimildir og komu þar fram sem fjórtán ára gamli drengurinn sem verkið skyldi vinna.

Norðmennirnir höfðu þá þegar gert ráðstafanir sín megin, útvegað íbúð í Lørenskog, norður af Ósló, og skotvopn. Klifrarinn þurfti aðeins að koma sér til Noregs, taka við íbúðinni og búa sig undir að vera á sama stað á sama tíma og skotmarkið.

Er þarna var komið sögu, síðsumars í fyrra, gerðu Svíarnir norskum kollegum sínum aðvart og Norðmennirnir fjórir voru handteknir nokkru síðar ásamt Dananum.

Íbúð og hlaðið skotvopn

„Við teljum þá hafa verið komna langt. Íbúð stóð til reiðu og þar var hlaðið skotvopn,“ segir Christian Hatlo, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en lögreglan telur sig enn fremur hafa komið í veg fyrir pöntun annars manndráps sem fremja skyldi í haust sem leið.

Enginn hinna grunuðu viðurkennir sök í málinu, Sidra Bhatti, verjandi eins þeirra, kveður sinn skjólstæðing ekki hafa gert lögreglu grein fyrir sínum þætti í málinu. „Hann viðurkennir ekki sök. Málið er í virkri rannsókn og við sjáum hvað verður,“ segir Bhatti við NRK.

Skotmarkið, undirheimajarlinn í Ósló sem til stóð að ráða af dögum, hefur verið upplýstur um málið og ræddi NRK við lögmann hans, Usama Ahmad. „Við höfum ekkert að segja um málið eins og er,“ sagði Ahmad.

Tugir afbrota í Noregi tengjast sænskum klíkum

Í desember greindi NRK frá því að rúmlega fjörutíu afbrot í Noregi síðustu árin tengdust sænskum glæpaklíkum órofa böndum og rétt fyrir jól fjallaði mbl.is um manndrápstilraun félaga sænsks gengis í Moss 28. nóvember 2023 þar sem 37 ára gamall Svíi var skotinn átta sinnum og lifði naumlega af. Í kjölfarið fylgdi stóraðgerð sérsveitar í Ósló eftir að lögregla komst á snoðir um samkomulag er sneri að því að myrða manninn á Ullevål-sjúkrahúsinu.

Kveðast fréttamenn NRK hafa vitneskju um að minnsta kosti níu svokölluð „crime as a service“-mál í Noregi þar sem falast hefur verið eftir því að félagar sænskra glæpagengja ryðji andstæðingum norskra gengja í Noregi úr vegi. Norska rannsóknarlögreglan Kripos staðfestir að í langflestum tilvikum sé um slík mál að ræða.

Hatlo ákæruvaldsfulltrúi segir þetta sýna, svo óyggjandi sé, að sænsku gengin svífist einskis. „Við höfum séð þetta í Svíþjóð um langt árabil og óttast að það muni færast yfir til Noregs. Og nú sjáum við þá í Noregi,“ segir Hatlo af þróun mála.

NRK

NRK-II (ræddu drápið á samskiptamiðli)

NRK-III (tólf ára gamalt fórnarlamb gengjastríðs)

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert