Meirihluti á móti því að beita hervaldi

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur að undanförnu viðrað hugmyndir um …
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur að undanförnu viðrað hugmyndir um yfirtöku á Panamaskurðinum og Grænlandi. AFP

Meirihluti bandarísks almennings er ekki á sömu blaðsíðu og Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hvað varðar yfirtöku á Grænlandi, Kanada og Panamaskurðinum, ef marka má nýja könnun á vegum Daily mail og J.L. Partners.

Aðeins 28 prósent Bandaríkjamanna vilja að Bandaríkin kaupi Grænland.

Samkvæmt könnuninni vilja aðeins einn af hverjum þremur Bandaríkjamönnum, eða rúm 32%, að Kanada og Panamaskurðurinn heyri undir bandarískt yfirráðasvæði.

Daily Mail greinir frá. 

Helmingur vill ekki sjá Kanada í Bandaríkjunum

Undanfarnar vikur hefur Trump, sem mun taka við forsetaembætti Bandaríkjanna á morgun, talað opinberlega um yfirtöku á Grænlandi og Panamaskurðinum en einnig hefur hann talað um ágæti þess að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna.

Könnun Daily Mail leiðir í ljós að 43% Bandaríkjamanna eru andvígir yfirtöku Bandaríkjanna á Panamaskurðinum en 25% hafa enga skoðun.

50% eru andvígir því að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna. 18% hafa enga skoðun og eins og fyrr segir vilja 32% sjá Kanada sem nýjasta ríki landsins.

62% á móti hervaldi gegn Grænlandi

Trump hefur ekki útilokað að beita hervaldi til að ná Panamaskurðinum og Grænlandi á sitt vald en samkvæmt könnuninni eru 58% Bandaríkjamanna andvígir því að beita hervaldi til að ná Panamaskurðinum en 22% eru með enga skoðun á því.

62% eru á móti því að beita hervaldi til að ná Grænlandi en 22% eru með enga skoðun á því.

Þó að Trump hafi ekki hótað að hervaldi yrði beitt gegn Kanada er það þó tekið með inn í myndina í könnun Daily Mail og sýna niðurstöður að aðeins 18% myndu styðja þær aðgerðir á meðan 62% væru andvíg þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert